Danir settu heimsmet í sparakstri

Danska liðið sigri hrósandi við lok keppni í Rotterdam.
Danska liðið sigri hrósandi við lok keppni í Rotterdam.

Danir voru meðal sigurvegara í svonefndu Shell Eco-maraþoni sem haldið var í lok maí í Rotterdam í Hollandi. Þar reyndu með sér 183 stúdentalið frá 24 löndum sem hannað höfðu og smíðað eigin keppnisbíla til þátttöku í maraþoninu.

Sett voru fimm ný heimsmet í hinum ýmsu flokkum en við sögu eins þeirra kom bíll Danska tækniháskólans (DTU) sem komst 612 kílómetra á einum lítra af vínanda.

Árangur í keppninni er metinn á þeirri forsendu hverjir komast lengst á einu kílóvatti sé farartækið búið aflrás sem gengur fyrir rafmagni eða sem svarar einum lítra bensíns, sé um fljótandi eldsneyti að ræða.

Að aka á einum lítra eldsneytis frá Rotterdam til Moskvu kann að virðast útilokað, en svo er ekki. Ár hvert brjóta skólaliðin skilvirknismúra og komast lengra og lengra. Met falla hvort sem um er að ræða hefðbundið eldsneyti á borð við bensín, dísil, etanól eða aðra orkugjafa sem vetni og rafmagn. Keppnin vekur mikla athygli dagana þrjá sem hún stendur yfir og tugþúsundir raða sér upp meðfram keppnisbrautinni í Rotterdam. Þegar upp var staðið hirtu lið frá níu löndum verðlaunin sem í boði voru, en þar voru frönsk lið hlutskörpust, fengu flest verðlaun.

Danski bíllinn áðurnefndi keppti í svonefndum „Urban Concept“ flokki en þann flokk hafa Danir unnið fimm ár í röð. Fyrir mótið í ár tókst að minnka þyngd bílsins úr 130 kílóum í 108 en einnig var hann endurbættur með skilvirkari kúplingu. Takmarkið var að bæta eigið heimsmet úr 611 km í 700. Ef til vill hafa slæmar aðstæður, meðal annars rigning, átt sinn þátt í að bætingin varð ekki eins mikil, eða 1,29 km.

Yfirburðir Dananna – sem kalla sig DTU Roadrunners – voru miklir því næsti bíll komst meira en helmingi styttra, eða 287 km á lítra. Bíll þeirra gekk fyrir vínanda en orka hans er umreiknuð sem um 95 oktana bensín væri að ræða.

Danir stóðu sig ágætlega í öðrum flokkum en sólrafhlöðubíll Árósaháskóla og vetnisbíll frá Álaborgarháskóla urðu í fimmta og fjórða sæti í sínum fokkum.

Bíllinn frá Álaborg, „Carbon Cobra“, komst sem svarar 291,34 kílómetra á kílóvattsstund, sem jafngildir 2.651 kílómetra á 95 oktana bensíni. Bíllinn frá Árósum var ekki klár til keppni fyrr en á síðustu stundu og því var ekki reynsluekið fyrir keppnina. Náði hann sem svarar 661,81 km á kílóvattsstund sem svarar til rúmlega 6.000 kílómetra á einum lítra bensíns.

agas@mbl.is

Óvenjulegt en skilvirkt farartæki hvað orkunotkun varðar líður fram í …
Óvenjulegt en skilvirkt farartæki hvað orkunotkun varðar líður fram í brautinni í Rotterdam. .
Keppt er meðal annars í flokki bíla sem ganga fyrir …
Keppt er meðal annars í flokki bíla sem ganga fyrir orku sólarinnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: