Volvo-trukkur vann Porsche í spyrnukeppni

Boike Ovebrink brosti út að eyrum eftir að hafa sigrað …
Boike Ovebrink brosti út að eyrum eftir að hafa sigrað Porsche.

Tvinntrukkur Volvo, sem gengur undir nafninu, Grimmur græni, hefur víða vakið athygli og sett met. Og nú hefur hann bætt einu afreki til viðbótar í safnið því á dögunum lagði hann sportbíl frá Porsche að velli í spyrnukeppni í Þýskalandi.

Atvikið átti sér stað á akstursíþróttahátíð í Nürburgringbrautinni um miðjan mánuðinn. Grimmur græni með sína 2.100 hestafla aflrás og 7.000 Newtonmetra tog atti kappi við Porsche Cayman R með næstum sjö sinnum færri hestöfl, eða 330. Á móti kemur að trukkurinn vegur margfalt meira en sportbíllinn.

Keppt var í hröðun á 350 metra löngum kafla og framan af fylgdust bílarnir ólíku að, en fljótlega seig Grimmur fram úr og „sleit marksnúruna“ 12 sekúndum eftir að rásmerki var gefið. Mældist hraði trukksins þá 180 km/klst. og miðað við þann hraða 12 sekúndum eftir kyrrstöðu sýnir það að upptakið er með ólíkindum.

„Ég var aðeins hægur í ræsingunni en eftir að ég var kominn í áttunda gír vissi ég að sigurinn væri minn. Tilfinningin að vinna í Nürburgring var fullkomin,“ segir ökumaður Volvo-trukksins, Boike Ovebrink.

Hámarkshraðinn á oddinn

Meðal meta sem hann hefur sett á trukknum er methraði á fljúgandi kílómetra og á kílómetra úr kyrrstöðu, en bæði voru sett á Wendower-flugvellinum í Utah í apríl. Fljúgandi kílómetrann ók hann á 236,5 km hraða og kílómetra úr kyrrstöðu á 153 km meðalhraða.

Grimmur græni er nær eingöngu byggður upp á íhlutum sem framleiddir eru í venjulega Volvo-trukka og er stýrishúsið og grindin til að mynda af Volvo VN trukk. Yfirbyggingin hefur hins vegar verið gerð ögn straumlínulaga til að auðvelda hröðun og hámarkshraða.

Vélin er af gerðinni Volvo D16 en stillt mjög upp á við í þágu kraftsins. Þá er í bílnum umbreytt útgáfa af sjálfvirkum Volvo I-Shift gírkassa sem vinnur með rafmótor trukksins. Saman skila D16-vélin og rafmótorinn 2.100 hestöflum, en þar af leggur rafmótorinn einn og sér til 200 hestöfl.

agas@mbl.is

Grimmur kemur í mark spölkorn á undan Porsche sportbílnum fína.
Grimmur kemur í mark spölkorn á undan Porsche sportbílnum fína.
Grimmur græni er öflugur trukkur.
Grimmur græni er öflugur trukkur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina