Hekla afhendir 12 rafbíla

Svo margir rafbílar hafa ekki verið afhentir á einu bretti …
Svo margir rafbílar hafa ekki verið afhentir á einu bretti og hjá Heklu í dag. mbl.is/Kristinn

Bílaumboðið Hekla afhenti í dag 12 Mitsubishi i-MiEV rafbíla og eiga kaupendur það sameiginlegt að vera íslensk fyrirtæki á sviði orkumála. Friðbert Friðbertsson forstjóri afhenti bílana og var Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og  viðskiptaráðherra viðstödd afhendinguna.

Kaupendur bílanna eru Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Eignarsjóður Reykjavíkur,  Landsnet, Skeljungur, HS Veitur, Norðurorka og Bílastæðasjóður. Með kaupunum eru fyrirtækin að stíga skref í átt að umhverfisvænni bílaflota og vilja um leið vekja athygli á því að rafbílar eru raunhæfur valkostur fyrir önnur fyrirtæki sem og almenning, að því er segir í tilkynningu um afhendinguna.

Til þess að gera áhugasömum kleift að vera með í þessari þróun hefur verið gert  samkomulag við Mitsubishi um að bjóða íslenskum almenningi rafbíla á  sömu kynningarkjörum og bílarnir, sem afhentir voru í dag. Það tilboð er tímabundið og gildir á meðan birgðir endast.

„Þetta er merkilegur dagur. Aldrei fyrr hafa svo margir rafbílar verið afhentir á einu bretti á Íslandi. Þetta kann að vera eitt af stóru skrefunum í átt að umhverfisvænna samfélagi á Íslandi. Hagstæðir samningar náðust við Mitsubishi um verð á i-MiEV rafbílum og það verð endurspeglar þær væntingar sem HEKLA og Mitsubishi hafa til Íslands sem markaðar fyrir rafbíla,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, í tilefni dagsins.

mbl.is