Dreifikerfi OR vel í stakk búið fyrir rafbílavæðingu

Guðleifur Kristmundsson á spánýjum rafbíl sem nýlega bættist í stóran …
Guðleifur Kristmundsson á spánýjum rafbíl sem nýlega bættist í stóran flotann hjá Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Ég vil nú ekki tala fyrir hönd þjóðarinnar, en dreifikerfi Orkuveitunnar er vel í stakk búið til að mæta aukinni raforkunotkun, eins og vegna rafbílavæðingar,“ segir Guðleifur Kristmundsson, sérfræðingur í kerfisrannsóknum og líkanagerð hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR), aðspurður hvort Íslendingar séu tilbúnir fyrir innreið rafbíla í stórum stíl.

„Góðu tíðindin eru þau að sífellt fleiri framleiðendur eru farnir að fjöldaframleiða rafbíla, og því er skeiði hinna sífelldu frumgerða lokið. Orkuveitan sér fyrir sér að styðja við þessa þróun einkum með tvennum hætti: Fyrst og fremst að gæta þess að dreifikerfi fyrirtækisins anni væntanlegri eftirspurn en líka með því að vera fyrirmynd og sýna fram á að rafbílar eigi sérstaklega vel við á Íslandi. Sú vinna hefur staðið um hríð en það er himinn og haf á milli gömlu Peugeot-bílanna sem Rafmagnsveitan keypti 1997 og þeirra sem fengust afhentir á dögunum,“ bætir Guðleifur við.

OR keypti á dögunum þrjá rafbíla af gerðinni Mitsubishi i-MiEV en hún átti einn slíkan fyrir, sem reynst hefur prýðilega.

Þrjár gerðir í útreikning

Rafbílar eru ný tegund álags á rafdreifikerfið, en Guðleifur hefur reiknað út, að til að knýja blandað safn 50.000 rafbíla þarf 112 GWh af raforku á ári. Þetta samsvarar 10% af forgangsorkumarkaði OR árið 2009.

Í þeim útreikningi er miðað við þrjár gerðir rafbíla: Tesla Roadstar sportbíl sem fer með 180 vött á km, Nissan Leaf fjölskyldubíl sem þarf 190 vött á km og Mitsubishi iMiev smábíl sem þarf 130 vött á km.

Guðleifur er spurður hvort eitthvað sé ógert til að geta tekið við straumi rafbíla án verulegra vandkvæða fyrir raforkukerfið og hvort til séu áætlanir um uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla á höfuðborgarsvæðinu.

Kvöldmatarálag

„Í raun er ekkert ógert að því leyti að kerfið er prýðilega í stakk búið að taka við aukinni notkun. Verði rafbílavæðingin mjög hröð, eða þegar hún verður komin á hátt stig, t.d. 50.000 bílar, þá þyrfti að stýra álagi þannig að það komi ekki inn til dæmis á sama tíma og allir eru að elda kvöldmat,“ segir Guðleifur.

„Tæknilegar lausnir eða verðstýring eru dæmi um slíkar leiðir. Í raun getur hver sem er sett sig í þau spor að koma heim á rafbílnum í lok vinnudags og velta fyrir sér hvort maður setur hann í samband þá eða fer aftur út eftir kvöldmat. Það er þægilegra að ganga frá þessu um leið og maður kemur heim en þá hugsanlega að hlaða með tímastilli.“

Guðleifur er spurður hvort dreifikerfið, til dæmis í úthverfum eða einstökum borgarhverfum, ráði við hleðslu mikils fjölda rafbíla. Hvað gerðist til dæmis í Vesturbænum ef þar keyptu menn allt í einu eins og 5.000 rafbíla og allir stingdu þeim í samband við heimkomu eftir vinnu?

„Þau vandkvæði, sem skapast geta í dreifikerfinu, geta verið af ýmsum stærðargráðum þegar rafbílar hafa sótt í sig veðrið. Það má sjá fyrir sér að efla þurfi flutningsgetu í tiltekinn borgarhluta, þar sem rafbílar hafa sérstaklega slegið í gegn. Það ástand getur líka skapast t.d. ef allir í sama botnlanganum fá sér rafbíl og hlaða allir á sama tíma. Þetta er ekki ósvipað og við urðum vör við á aðfangadagskvöld fyrir nokkrum áratugum, þegar samtímaálag á milli kl. 17 og 18 var verulegt,“ segir Guðleifur.

Hermt er að einn rafbíll í hleðslu í Kaliforníu taki til sín orku sem svarar rafnotkun þriggja einbýlishúsa; nýjustu bílar taki til sín straum mun hraðar en áður.

Guðleifur segir að þetta geti átt við um hraðhleðslu en að alla jafna taki hleðsla rafbíls viðlíka afl og hraðsuðuketill. Hann segir að svarið við þessum hugsanlega vanda sé að eigendur geti stillt bílana inn á að hlaða sig á minni álagstímum, t.d. á nóttunni.

Litið til Norðurlanda

Loks er Guðleifur Kristmundsson spurður hvort OR byggi við undirbúning rafbílavæðingar á reynslu einhverra einstakra annarra ríkja. „Ekki einstakra annarra ríkja en að mörgu leyti getum við litið til Noregs. Þar er efnahagskerfi svipað, lagarammi svipaður, hreinir orkugjafar og opinberir hvatar til rafbílavæðingar keimlíkir. Þar er rafhitun hinsvegar miklu útbreiddari en hér á landi og dreifikerfi rafmagns afkastameira sem því nemur.“

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál nánar er bent á eftirfarandi heimild: Guðleifur M. Kristmundsson og Valgerður Einarsdóttir: Innleiðing rafbíla: Vannýtt straumgeta í rafdreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur. Árbók VFÍ/TFÍ 2010 (bls. 253-260).

agas@mbl.is

Guðleifur Kristmundsson, í baksýn er spánýr rafbíll sem nýlega bættist …
Guðleifur Kristmundsson, í baksýn er spánýr rafbíll sem nýlega bættist í stóran flotann hjá Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: