Hamstur keyrir vörubíl

Þessi hamstur er ekki með meirapróf, en getur samt stýrt …
Þessi hamstur er ekki með meirapróf, en getur samt stýrt vörubíl ef á þarf að halda. Ernir Eyjólfsson

Það er svo auðvelt að stýra nýju vörubílunum frá Volvo að meira að segja hamstur getur gert það. Og það er akkúrat það sem Volvo ákvað að gera, til að sýna fram á hversu góður og léttur stýrisbúnaður bílanna er.

Lesendur muna ef til vill eftir fréttum um dýr undir stýri, til að mynda um ökuskóla Mini fyrir hunda, og að sjálfsögðu um hund (sem fór ekki í ökuskóla) sem keyrði á gangandi vegfaranda.

En hamstrar undir stýri, það er alveg nýtt.

Hamstrar eru reyndar frekar illa búnir til vörubílaaksturs, þar sem þeir ná til dæmis ekki niður á pedalana. Þeir virðast þó geta, með hjálp gulrótar og sérsmíðaðs búrs, stýrt vörubílum upp úr djúpri námu, eftir malarvegum sem liggja utan í kletti, með ekkert nema hengiflug á hægri hönd.

Skoðaðu þessa æsispennandi hasar-hamstra-vörubílamynd frá Volvo. Engir vörubílstjórar hlutu skaða við tökur myndbandsins.

mbl.is