Toyota innkallar Sienna sendibíla

Toyota Sienna sendibíll.
Toyota Sienna sendibíll.

Toyota hefur ákveðið að innkalla 694.000 lítilla sendibíla af gerðinni Sienna. Þar af er að finna 615 þúsund í Bandaríkjunum einum og sér.

Hugsanleg bilun í gírstöng í sjálfskiptingu hefur orðið þessa valdandi. Vegna hugsanlegra skemmda i segulliða er hætt við því að gírstöngin renni úr P-stöðu án þess að stigið sé á bremsuna fyrst. Fyrir bragðið gæti bíllinn runnið af stað fyrirvaralaust og valdið árekstrarhættu.

Að sögn talsmanns Toyota hafa verið tilkynnt um 21 „minniháttar óhöpp“ í Bandaríkjunum og þrjú í Kanada sem rakin hafa verið til bilunar í segulliðanum umrædda.

Býðst Toyota til að skipta um segulliðann í skiptingunni. Bílarnir sem um er að ræða eru af árgerðunum 2004, 2005, 2007, 2008 og 2009. Þeir voru allir smíðaðir í bílsmiðju Toyota í Indiana.

Fyrir utan bílana 615 þúsund í Bandaríkjunum nær innköllunin til um 56.000 bíla í Kanada, 23.000 í Mexíkó, um 300 í Þýskalandi og 10 í Gvatemala. Siena er í öðru sæti á lista yfir söluhæstu minni sendibíla í Bandaríkjunum, aðeins Dodge Caravan hefur selst betur. Til ágústloka frá áramótum höfðu 86.459 Siennabílar selst þar í landi, sem er 5% aukning, en á sama tímavar 15% samdráttur í sölu Caravan sem 94.639 eintök hafa selst af.

mbl.is

Bloggað um fréttina