Viltu jeppa sem eyðir 2,4 lítrum?

Á laugardaginn sögðum við frá fyrirætlunum Tesla um að hefja framleiðslu á rafmagnspallbíl innan fimm ára. Það gæti hins vegar verið að Elon Musk og félagar verði að spýta í lófana ef þeir ætla ekki að missa af lestinni.

Á bílasýningunni í Los Angeles, sem hefst á fimmtudaginn, mun fyrirtækið VIA Motors kynna breiða línu af pallbílum sem allir verða knúnir tvíorkuaflrás. Bílarnir koma upphaflega frá GM en fyrirtækið skiptir aflrásinni út fyrir sína eigin hönnun, og með henni eiga pallbílar og jeppar að geta náð eyðslunni niður í 2,4 lítra á hundraðið, miðað við venjulegan akstur.

Bílarnir geta gengið allt að 60 km á rafmagninu einu saman, svo það ætti að duga flestum Íslendingum sem nota risastóra pallbíla og jeppa til og frá vinnu. Þurfi þeir hins vegar að fara lengra tekur vararafstöðin við og framleiðir rafmagn fyrir kerfið. Hún er svo aftur knúin tveggja til fjögurra lítra mótor, allt eftir því hversu mikillar raforku er þörf í hverjum bíl.

Rafmótorinn sjálfur er 402 hestöfl, og þó að bílarnir séu gírkassalausir er hægt að fá þá með millikassa (og þar af leiðandi fjórhjóladrifi), segir í frétt Autoweek.

VIA Motors er nýtt fyrirtæki í Mexíkó, en í verksmiðju þess á að vera hægt að anna 10.000 bílum á ári, gerist þess þörf.

Næsta víst er að íslenskt jeppafólk tæki slíkum bílum fagnandi hendi.

Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir drifrás VIA Motors, en fleiri myndbönd má skoða á heimasíðu fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina