Nissan Leaf er söluhæstur bíla í Noregi

Nissan Leaf rafbíllinn.
Nissan Leaf rafbíllinn.

Annan mánuðinn í röð var rafbíll söluhæsti bíll októbermánaðar í Noregi. Í september var það Tesla Model S en þótt sala hans hryndi í október hélt Nissan Leaf kyndli rafbíla á lofti með því að seljast betur en nokkurt annað farartæki.

Alls seldust 716 Leaf í október í olíuríki frænda okkar austan Atlantshafsins og nam hlutdeild bílsins í heildarsölunni 5,6%. Í næstu sætum urðu Toyota Auris og Volkswagen Golf, að sögn norsku umferðarstofnunarinnar sem heldur saman gögnum um bílasölu í landinu.

Heildarhlutdeild rafbíla í markaðnum í október var 7,2% sem er talsverð aukning frá í fyrra, en í október 2012 nam hún 3,4%.

Í viðtali við frönsku fréttastofuna AFP segir Pål Bruhn, talsmaður stofnunarinnar, það hafa komið sér á óvart að rafbíll skuli söluhæstur í Noregi tvo mánuði í röð. Þar í landi eru neytendur hvattir til rafbílakaupa með hvers kyns ívilnunum, svo sem skattaafslætti, undanþágum frá gjaldi til aksturs í miðborgum ásamt því að þurfa ekki að borga fyrir að leggja í stæði. Þá er þeim heimilt að aka á akreinum sem hingað til hafa verið fráteknar fyrir strætisvagna.

Þessi stefna mælist misjafnlega fyrir meðal Norðmanna, sem mörgum hverjum finnst ívilnanirnar úr hófi fram og þeir standa verulega höllum fæti sem ekki keyra um á rafbíl. Þannig mun Hákon krónprins eiga Tesla S-bíl og hefur verið reiknað út að ívilnanir eigenda þess ekki svo billega lúxusbíls jafngildi 737.000 norskum króna á bíl, jafnvirði um 14,7 milljóna íslenskra. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: