Klúbbur áhugamanna um Volvo stofnaður

Gamall og góður Volvoklár með 4,8 milljónir km að baki.
Gamall og góður Volvoklár með 4,8 milljónir km að baki. mbl.is/Volvo Cars

Volvoklúbbur Íslands var nýlega stofnaður en fyrir stofnun hans stóðu nokkrir áhugamenn um Volvo-bifreiðar. Á stofnfund mættu um 40 félagar, karlar og konur sem eiga það sameignlegt að hafa sérstakan áhuga á sænsku bílunum.

Í frétt frá klúbbnum nýstofnaða segir, að gríðarlega stóran hóp af miklu áhugafólki um Volvo-bifreiðar sé að finna á Íslandi. Tímabært hafi verið að stofna félag utan um þennan stóra hóp.

„Markmiðið með hinum nýja klúbbi er fyrst og fremst að bjóða upp á vettvang til að stuðla að og efla tengsl milli áhugamanna um Volvo bifreiðar, skipuleggja fundi og kynningar, hittast og sýna bíla félagsmanna, efna til lengri og styttri ferða og stuðla að því að félagsmenn kynnist hverjum öðrum. Markmiðið er einnig að halda úti heimasíðu, fylla hana af sögum og myndum, fréttum og upplýsingum. Skrásetja og varðveita sögu gamalla Volvobíla á Íslandi. Nú liggur fyrir hjá fyrstu stjórn Volvoklúbbs Íslands að koma þessu í framkvæmd og er mikil tilhlökkun hjá stjórnarmönnum að hefjast handa,“ segir í tilkynningu frá klúbbnum.

Á stofnfundinum var fyrsta stjórn klúbbsins kosin. Í henni sitja Ragnar Þór Reynisson, Hafsteinn Ingi Gunnarsson, Oddur Pétursson, Magnús Rúnar Magnússon og Ingólfur Hafsteinsson. Varamenn eru Einar Unnsteinsson og Bjarki Vilhjálmsson. Heimasíða félagsins erwww.volvoklubbur.is

mbl.is