Met í nýskráningum rafbíla í Noregi

Tesla Model S.
Tesla Model S. mbl.is/Malín Brand

Rafbílar voru 11,9% nýskráðra bíla í Noregi í nóvember nýliðnum, en það er í fyrsta sinn sem hlutur þeirra fer yfir 10%.

Alls voru nýskráðir 1.434 rafbílar í mánuðinum, samkvæmt opinberum tölum sem birtust fyrr í dag. Um mikla aukningu er að ræða milli ára, því í nóvember í fyrra voru rafbílar aðeins 2,6% af nýskráðum bílum.

Þrátt fyrir þessa aukningu var mest seldi bíllinn í nóvember ekki rafbíll, í fyrsta sinn í þrjá mánuði, heldur Volkswagen Golf. Í öðru sæti var hins vegar Tesla Model S (sem var í fyrsta sæti í september), en Nissan Leaf (sem var í fyrsta sæti í október) var í því fimmta og Volkswagen E-Up í því níunda, allt rafbílar.

Norska ríkið hefur lagt sitt af mörkum til að auka vinsældir rafbíla. Til dæmis eru þeir undanþegnir virðisaukaskatti og öðrum háum bílasköttum. Þá þurfa rafbílaeigendur ekki að borga bílastæðagjöld eða vegtolla í borgum, auk þess sem þeir mega nota strætóakreinar.

Þá er þéttriðið net hleðslustöðva um allt land, og til að auka enn á vinsældirnar keyrir Hákon krónprins á Tesla Model S.

Nissan Leaf.
Nissan Leaf.
Volkswagen E-up
Volkswagen E-up
mbl.is