Fyrsti Porsche-bíllinn finnst eftir 112 ár í vöruhúsi

Wolfgang Porsche (t.v.) stjórnarformaður og Matthias Müller forstjóri svipta Porsche …
Wolfgang Porsche (t.v.) stjórnarformaður og Matthias Müller forstjóri svipta Porsche P1 hulum er honum var stillt upp til sýnis í Porsche-safninu í Stuttgart. mbl.is/afp

Flestir hafa tapað lyklunum sínum, farsíma eða peningaveski einhvern tíma á lífsleiðinni. En líklega hefur enginn týnt bílnum sínum. Þó ekki nema hann heiti Porsche sem virðist hafa gleymt fyrsta bílnum sem hann smíðaði.

Svo er nefnilega mál með vexti að Porsche P1, sem er stytting fyrir Porsche númer 1, fannst á dögunum í vörugeymslu í Austurríki en þar reyndist bíllinn hafa staðið óhreyfður frá árinu 1902.

Að sögn þýska sportbílasmiðsins var P1 til sýnis á alþjóðlegri bílasýningu í Berlín 1899. tók hann þar þátt í 40 kílómetra kappakstri sem haldinn var 28. september til að vekja athygli á – já – rafbílum.

P1 lauk kappakstrinum 18 mínútum á undan keppinautunum en helmingur þeirra féll reyndar úr leik á leiðinni vegna tæknilegra bilana. Í sérstöku skilvirknisprófi reyndist P1 einnig sparneytnastur á raforkuna.

Eigi mjög löngu eftir sýninguna var bíllinn settur í geymslu þar sem hann svo safnaði ryki áratugum saman, eða í rúmlega öld. Um ástæður þess virðist fátt eða ekkert vitað. Þó er nú ljóst, að „Egger-Lohner rafbíllinn, C.2 Phaeton model“, svo fulls nafns sé getið, mun framvegis njóta þeirrar umhirðu og athygli sem hann verðskuldar. Hefur hann fengið sinn sérstaka stall í Porsche-safninu í Þýskalandi.

Porsche P1 er af mörgum ástæðum einkar sérstakur bíll. Fyrst og fremst þó fyrir það að það var sjálfur stofnandi Porsche, Ferdinand Porsche, sem hannaði hann og smíðaði sjálfur. Þetta var og einn fyrsti bíllinn sem skráður var í Austurríki, eða 26. júní árið 1898.

Bíllinn var knúinn 130 kílóa rafmótor sem skilaði að jafnaði þremur hestöflum niður til hjólanna. Þó mátti auka aflið í sérstökum „álagsham“. Hámarkshraði var 35 km/klst og drægið um 80 kílómetra. Á tímum P1 og árunum þar á eftir urðu rafbílar undir í samkeppni við bíla búnum vélum með brunahreyfli. En tímarnir breytast á ný og nú er það athyglisverð staðreynd að nýjasti bíllinn frá þýska sportbílasmiðnum er rafbíll, í formi tvinnbílsins Porsche 918. agas@mbl.is

Porsche P1 frá 1898, sá fyrsti sem fyrirtækið smíðaði, er …
Porsche P1 frá 1898, sá fyrsti sem fyrirtækið smíðaði, er hér til sýnis á Porsche safninu í Stuttgart. Hönnuðurinn var sjálfur Ferdinand Porsche. mbl.is/afp
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina