Nýr draugur með GPS sjálfskiptingu

Það er ekki á hverjum degi sem nýr Rolls-Royce kemur á markað, en það gerðist nú samt í gær þegar ný útgáfa af Ghost var frumsýnd á bílasýningunni í Genf. 

Um er að ræða töluvert breyttan bíl frá eldri útgáfunni. Til að mynda eru á bílnum ný LED-aðalljós, endurhannaðir stuðaðar,  ný vélarhlíf, nýjar felgur og nýir lakklitir í boði.

Að innan hafa framsætin og mælaborðið fengið yfirhalningu, og hægt er að velja um tvær nýjar viðartegundir í innréttingu. 

Þá hefur fjöðrunin verið endurhönnuð, sem og stýrisvélin og nýjar þrýstivökvalegur í afturhjólin sem eiga að auka við þægindi, minnka titring og „truflun í farþegarými“.

Loks verða allir Ghost II með átta þrepa sjálfskiptingu sem fyrst var kynnt í Wraith og notar GPS-tækni til að tryggja að bíllinn sé alltaf í réttum gír miðað við það sem framundan er.

Loks er það mótorinn: 6,6 lítra V12 með 48 ventlum, 563 hestöfl og 780 Nm.

Bíllinn fæst bæði með stuttu og löngu hjólhafi (sá síðarnefndi er hugsaður fyrir þá sem keyra ekki sjálfir) og sá styttri er 4,9 sekúndur í hundrað, þrátt fyrir að vigta tæplega 2,4 tonn.

Eldsneytiseyðsla innanbæjar er ekki fyrir hina vinnandi stétt, 21,2 lítrar á hundraðið, en í utanbæjarakstri fer hún niður í 9,8 lítra.

Með því að smella hér getur þú skoðað kynningarmyndband fyrir Ghost II. Eins og annað sem markaðsdeild Rolls-Royce lætur frá sér er myndbandið dálítið ... spes.

En bílarnir eru fallegir.

mbl.is