Rafbílar rjúka út í Noregi

Nokkrir Tesla S bílar eru á Íslandi, en í Noregi …
Nokkrir Tesla S bílar eru á Íslandi, en í Noregi seldust 1.493 slíkir bílar í marsmánuði 2014. mbl.is/Árni Sæberg

Sala á rafbílum sló öll met í Noregi í marsmánuði. Samkvæmt skráningum var 1 af hverjum 5 seldum bílum umhverfisvænn. Rafbíllinn Tesla S seldist í hvorki meira né minna en 1.493 eintökum og hafa aldrei selst jafnmörg eintök af sömu bíltegund í einum mánuði í Noregi.

Salan á hinum sportlega Tesla S var tvöfalt meiri en á næstvinsælasta bílnum í marsmánuði, sem er Volkswagen Golf.

Hákon krónprins Noregs og Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra og verðandi framkvæmdastjóri Nato, eru meðal margra frægðarmenna sem hafa skráð sig á biðlista eftir því að festa kaup á Tesla S.

„Ég hef yfirleitt ekkert sérstaklega gaman af sölutölum bíla, en þessar mun ég lesa fyrir börnin mín sem sögu fyrir svefninn,“ sagði Frederik Hauge, stjórnandi umhverfisverndarsamtakanna Bellona, við tíðindin um stöðugan uppgang rafbíla í Noregi. Sjálfur á hann Tesla S.

Metnaðarfull áætlun um rafbílavæðingu

Markaðshlutdeild rafbíla í mars var alls 20,3% í Noregi, ekki aðeins vegna vinsælda Tesla því rafbílarnir Nissan Leaf og Volkswagen e-Up eru líka eftirsóttir meðal Norðmanna.

Það er ekki tilviljun að Norðmenn eru í fararbroddi við að rafvæða bílaflotann, því norsk stjórnvöld hafa gert ýmislegt til að auka hvatann fyrir neytendur. Má þar nefna að tollar eru umtalsvert lægri á umhverfisvænum bílum, það er ókeypis að leggja þeim þar sem annars eru gjaldstæði og lagðar hafa verið sérstakar akreinar aðeins fyrir umhverfisvæna bíla sem komast fyrir vikið hraðar í gegnum umferðina.

Markmið norskra stjórnvalda er að styðja við innleiðingu rafbíla gagngert með slíkum aðgerðum fram til ársins 2017, eða þar til 50.000 rafbíla hafa verið seldir. Nú þegar eru 26.000 rafbílar á vegum úti í Noregi.

mbl.is