Fullur unglingur drap fjóra, sleppur því hann er ofdekraður

Ethan Couch.
Ethan Couch.

Ethan Couch var 16 ára þegar hann settist undir stýri á pallbíl föður síns, ölvaður og í lyfjamóki, og varð fjórum að bana. Hann sleppur hins vegar við refsingu, því sálfræðingur sem bar vitni fyrir rétti segir hann fórnarlamb velmegunar foreldra sinna.

Couch ók á fjórar manneskjur sem stóðu við bilaðan bíl, og létust þær allar. Pallbíllinn rakst líka utan í kyrrstæðan bíl, sem rann við það á bíl sem kom á móti. Tveir farþegar sem sátu á pallinum hjá Couch köstuðust af bílnum og hlutu alvarleg meiðsl.

Annar getur hvorki hreyft sig né talað vegna áverka á heila, en hinn hlaut innvortis meiðsl og beinbrot. Bíllinn var á nærri tvöföldum hámarkshraða.

Alltaf fengið það sem hann vildi

Couch hefur ekki sýnt nein merki um iðrun, en í stað þess að dæma hann til 20 ára fangelsisvistar, eins og saksóknarar fóru fram á, dæmdi dómarinn Couch í skilorðsbundinn fangelsisdóm í tíu ár. Auk þess þarf hann að áfengis- og vímuefnameðferð sem foreldrum hans var gert að greiða fyrir. 

Aðstandendur fórnarlamba Couch eru skiljanlega æfir vegna dómsins, en hann var mildaður vegna þess að sálfræðingur bar fyrir rétti að Couch væri ekki sakhæfur þar sem foreldrar hans hefðu alltaf látið allt eftir honum. Þau væru vellauðug og Couch hefði aldrei kynnst því að fá ekki allt sem hann vildi, eða að þurfa að bera ábyrgð á einhverju. 

Hann hefði því ekki verið nægilega tilfinningalega þroskaður til að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Hluti af dómnum gengur út á að Couch slíti sambandi við foreldra sína meðan reynt verður að vinda ofan af ofdekrinu. Foreldrum hans var þó gert að borga áfengis- og fíkniefnameðferð sem Couch þarf að undirgangast. En þar sem þau búa í Texas, og ríkið niðurgreiðir 95% af kostnaði, borga þau líklega samtals um 250.000 kr.

Peningar skipta máli

Eric Boyles, sem missti bæði konu sína og dóttur í slysinu, sagði við CNN að Couch þyrfti ekki að bera neina ábyrgð á því sem gerðist þann dag. „Við verðum að senda út þau skilaboð að peningar og forrétti geti ekki keypt réttarkerfið í þessu landi.“

„Hefði Couch ekki átt peninga til að borga lögmönnum, til að láta sérfræðinga bera vitni, til að bjóðast til að borga fyrir meðferð, þá held ég að dómurinn hefði fallið öðruvísi,“ sagði Boyles í öðru viðtali.

mbl.is