Kóngulær hrella eigendur Mazda 6

Mazda 6 kemur nú af þriðju kynslóð en hann var …
Mazda 6 kemur nú af þriðju kynslóð en hann var fyrst kynntur til sögunnar árið 2002 og leysti þá af hólmi Mazda 626.

Segja má að Mazda eigi í heldur óvenjulegu stríði við kóngulær sem gert hafa sig heimakomnar í loftinntökum bensíntanka. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi því margfætlur þessar hafa valdið því að Mazda hefur neyðst til að innkalla 42.000 bíla í Bandaríkjunum.

Kóngulær höfðu sem sagt grafið um sig og spunnið vefi í loftbörkum en með því er talin aukin hætta á bensínleka og eldhættu. Af þeim sökum – og til að uppræta vandann – hefur Mazda orðið að innkalla 42.000 bíla af gerðinni Mazda 6 í Bandaríkjunum.

Kóngulær þessar eru þeirrar náttúru að vilja háma í sig kolvatnsefni sem gnægð er af í bensíntönkum. Athafnasemi hinna svonefndu gulpokakóngulóa veldur auknum þrýstingi í loftbörkunum sem fræðilega getur valdið sprungumyndun í bensíntanki og þar með eldhættu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bensínsjúkar áttfætlur leggjast á Mazda 6-bíla. Fyrir þremur árum varð japanski bílsmiðurinn að innkalla rúmlega 50.000 bíla af sömu ástæðu og nú. Í það skipti var loki komið fyrir á loftinntakinu til að kóngulærnar kæmust ekki inn. En þessum örlitlu kvikindum hefur tekist að snúa á mannskepnuna því nú liggja fyrir níu staðfest tilvik þar sem kóngulær voru aftur búnar að hreiðra um sig í hosunum eftir síðustu innköllun.

Íslenskir eigendur Mazda 6 munu víst ekki þurfa að hafa áhyggjur af þessari óvætti þar sem gulpokakóngulóin mun ekki hafa numið land í norðanverðri Evrópu. Hafa þær einungis fundist í bandarískum Mazda 6-bílum með 2,5 lítra fjögurra strokka bensínvél sem smíðaðir voru milli september 2010 og maí 2012. Þótt talin sé aukin eldhætta samfara athafnasemi kóngulóanna munu engin dæmi um eldsvoða í lúsugum bílum.

Ekki eru allar kóngulær illa þokkaðar af hálfu Mazda því japanski bílsmiðurinn á nú í samstarfi um að þróa nýja útgáfu af sportbílnum Alfa Romeo Spider sem byggður verður upp af nýjasta MX-5-undirvagninum sem Mazda hefur framleitt.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: