Pharrell og flottu bílarnir

Pharrell Williams ók um á þessum Rolls-Royce Phantom.
Pharrell Williams ók um á þessum Rolls-Royce Phantom.

Flest gengur Pharrell Williams í hag þessa dagana og vel við hæfi að það lag sem flestum dettur í hug þegar nafn hans ber á góma heitir „Happy“ enda hefur kappinn alla ástæðu til að vera alsæll með lífið og tilveruna.

Hann er í hópi virtustu og vinsælustu hip-hop-listamanna samtímans, nýtur virðingar hvarvetna, hefur fengið frábæra dóma fyrir nýútkomna sólóplötu sína, G I R L, og er í ofanálag með hina gullfallegu Helen Lasichanh upp á arminn. Eins og framangreint væri ekki nóg þá veit kappinn ekki aura sinna tal og notar ríkidæmi sitt, meðal annars, til að sinna ástríðu sinni fyrir fágætum og fokdýrum bílum. Og þvílíkir bílar sem hann á.

Sígandi lukka er best

Pharrell stendur nú óumdeilanlega á hátindi ferils síns og eru allir vegir færir enda sá tónlistarmaður varla starfandi sem ekki vildi starfa með honum; allt sem hann kemur nálægt verður samstundis að gulli. Að sama skapi stendur hann á fertugu en hann fagnaði þeim tímamótum hinn 5. apríl síðastliðinn. Hann er því ekki að springa út í heimsfrægð á fyrstu metrum ferilsins heldur hefur hann hlaðið jafnt og þétt utan á orðsporið, allt frá því hann stýrði upptökugenginu The Neptunes ásamt vinum sínum, þeim Mike Etheridge og Shay Haley. Reyndar má telja feril hans aftur til ársins 1992, þegar hann lagði hönd á plóg við að semja og hljóðblanda smellinn Rump Shaker með Wreckx-N-Effect. Sjálfur hefur hann lýst þeim J-Dilla, Stevie Wonder og Rakim sem sínum helstu áhrifavöldum. Um leið nefnir hann plötuna People's Instinctive Travels and the Paths of Rhythm sem hin goðsagnakennda sveit A Tribe Called Quest sendi frá sér árið 1990.

Svartir og svaðalegir

Nú til dags, þegar Pharrell getur látið eftir sér nokkurn veginn hvaða bifreið sem hugurinn girnist, er hann ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann á ekkert nema draumabíla úr allra efstu hillunni. Sem dæmi um bílaeignina má nefna að það eru sjálfsagt ekki margir sem eiga bæði Ferrari Enzo og Mercedes-Benz McLaren SLR í bílskúrnum en báðir eru ekki bara fjúkandi rándýrir heldur fá miklu færri að koma höndum á þá en vilja því eftirspurnin meðal auðmanna er margföld á við eftirspurnina. Hann fer þó frekar sparlega með framangreinda ofursportbíla og rúntar frekar á Rolls-Royce Phanton Drophead Coupe eða lætur aka sér um á Rolls-Royce Phantom. Sá síðarnefndi fék meira að segja stórt hlutverk í myndbandinu við lagið „DropIt Like It's Hot“ með Snoop Dogg en Pharrell kemur þar við sögu sömuleiðis.

Loks á Pharrell einn voldugan

GMC Yukon Hybrid til að sýna smá umhverfisvernd og virðingu í verki, sem er vel.

jonagnar@mbl.is

Pharrell Williams er líka gefinn fyrir mótorhjól og þá helst …
Pharrell Williams er líka gefinn fyrir mótorhjól og þá helst Harley-Davidson.
Pharrell Williams á Ferrarifák af bestu gerð.
Pharrell Williams á Ferrarifák af bestu gerð.
Pharrell Williams og kona hansHelen Lasichanh.
Pharrell Williams og kona hansHelen Lasichanh.
Silfurörin svokallaða, Mercedes-Benz McLaren SLR, kemur ekkert síður vel út …
Silfurörin svokallaða, Mercedes-Benz McLaren SLR, kemur ekkert síður vel út í svörtum lit. Enda er eintak Pharrells einmitt þannig, bleksvart í litnum „Triple Black“. Hann hefur sjálfsagt ekki séð það svartara!
Hvað eiga Pharrell Williams og David Beckham sameiginlegt? Jú, þeir …
Hvað eiga Pharrell Williams og David Beckham sameiginlegt? Jú, þeir kjósa helst að taka sultuslakan rúnt á Rolls-Royce Phantom Drophead Coupe. Pharrell býr í Miami og þar er veðráttan ekki vandamál fyri opinn bíl.
Pharrell Williams á ferð í Los Angeles á Porsche 550 …
Pharrell Williams á ferð í Los Angeles á Porsche 550 Spyder.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: