Þessi Nissan GT-R er Trabant-æta

Fyrir þá sem vilja breyta vélum og aksturseiginleikum bíla, til að gera þá kraftmeiri og hraðskreiðari, hefur Nissan GT-R alltaf verið vinsælt „hráefni“ ef svo má að orði komast.

Breytingafyrirtækið AMS Performance sérhæfir sig í að „tjúna“ GT-R bíla upp úr öllu valdi og halda götulöglegum á meðan. GT-R bíll á þeirra vegum, sem kallaður er Alpha Omega, skilaði um 2.000 hestöflum út í hjól og fór kvartmíluna síðasta sumar á 7,984 sekúndum.

(Skoðið virkilega áhugavert Youtube-myndband um Alpha Omega með því að smella hér.)

Í ljósi þess að til eru Trabant-bílar sem fara hraðar en Nissan GT-R hefði mátt ætla að hér Alpha Omega væri hátindurinn á því sem hægt er að gera við GT-R.

En það er nú aldeilis ekki þannig, því meðfylgjandi myndand sýnir annan GT-R fara kvartmíluna á 7,81 sekúndu.

Því miður hafa ekki fundist hestaflatölur fyrir bílinn, sem var breytt af Extreme Turbo Systems. Í lýsingunni með myndbandinu á Youtube má hins vegar lesa sér til um hvaða íhlutir voru notaðir til breytinganna.

Ekki hefur frést af neinum Trabant-eigendum sem hafa skorað á þennan eldsnögga Nissan, enda myndi hann sjálfsagt borða þá í morgunmat. 

mbl.is