740.000 ótryggðir bílstjórar á vegunum

Milli 1% og 2% ökumanna í umferðinni dags daglega eru …
Milli 1% og 2% ökumanna í umferðinni dags daglega eru ótryggðir. Þess utan er rúmur helmingur þeirra réttindalaus í ofanálag. mbl.is/afp

Allt að 740.000 bílstjórar aka ótryggðir á vegum Frakklands dag hvern, samkvæmt niðurstöðum rannsókna sérstaks bótasjóðs sem tryggingafélög borga í og ætlað er að bæta fórnarlömbum ótryggðra ökumanna tjón sitt.

Sjóðurinn, Fonds de Garantie des Assurances Obligatoires (FGAO), segir að ástandið fari hríðversnandi. Hafi ökumönnum með engar tryggingar á bak við sig fjölgað um 28% frá árinu 2008, eða frá því efnahags- og fjármálakreppan gekk í garð.

Með tilliti til fjölgunarinnar hafa sérfræðingar reiknað út, að í besta falli séu ótryggðir ökumenn að staðaldri á ferð samtals 370.000 en í versta falli 740.000. Nemur þetta því sem nemur 1% til 2% af bílum í umferðinni dags daglega. Verstu syndaselirnir eru ungir ökumenn, því 59% fjöldans eru undir 35 ára aldri.

Þversögnin í þessu öllu er sú, að það eru tryggðir ökumenn sem borga reikninginn því FGAO-sjóðurinn er fjármagnaður með hluta af iðgjöldum sem tryggingarfélögum er greitt. Sjóðurinn kom við sögu í 27.164 mála árið 2013, en eins og fyrr segir bætir hann tjón sem fórnarlömb ótryggðra tjónvalda verða fyrir. Eftir aðstæðum lögsækir hann tjónvaldana til að endurheimta útgjöld sín.

Þar fyrir utan eiga slíkir ökumenn yfir höfði sér saksókn fyrir hegningarlagabrot. Hámarkssekt við að aka ótryggður nemur 3.750 evrum, sem er aðeins brot af þeirri upphæð sem viðkomandi getur þurft að borga vegna tjóns sem hann eða hún veldur. Slík endurgreiðsla getur tekið mörg ár og í óvenjulegum málum getur skuldin færst yfir á börn hins ótryggða ökumanns. Talið er að 60% ótryggðra ökumanna séu einnig próflausir eftir sviptingu ökuréttinda.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: