Bíll eða flugvél? Reyndar bæði!

Pegasus kann að koma fólki spánskt fyrir sjónir enda er …
Pegasus kann að koma fólki spánskt fyrir sjónir enda er hann hálfvegis flygildi og hálfvegis léttur torfærubíll.

Franskt fyrirtæki er að þróa frumgerð af fljúgandi bíl, Pegasus að nafni, sem það vonast til að geta sett á markað á næsta ári. Er hann í senn hálfgerður torfærubíll af smærri gerðinni og hálfvegis flygildi.

Franski herinn hefur sýnt þessari afurð fyrirtækisins Vaylon í Strasbourg sérstakan áhuga. Pegasus gengur fyrir venjulegu bensíni og getur náð allt að 100 km/klst hraða á vegum. Í lofti hefur hann þriggja stunda flugþol á 60-80 km ferð. Getur hann náð allt að 10.000 feta flughæð.

Tvennt gæti hamlað almennri sölu á farartæki þessu. Annars vegar verðið, sem er um 100.000 evrur, eða rúmar 15 milljónir króna. Hins vegar það, að eigendur yrðu að sækja námskeið og verða sér úti um réttindi til að fljúga vélknúnum flugvængjum. Mjög auðvelt væri hins vegar að verða sér úti um þau.

Vonast forsvarsmenn Vaylon að stofnanir á sviði löggæslu og öryggismála sýni Pegasus áhuga, svo og óháðar stofnanir og auðmenn. Franski herinn hefur þegar sýnt flygildinu áhuga og veitt Vaylon fjárstyrki til þróunar þess.

„Pegasus er ódýrari og lætur minna fara fyrir sér en lögregluþyrla,“ sagði talsmaður Vaylon við blaðið Le Figaro. „Hann hentar til eftirlitsstarfs og auðveldar aðkomu að hrjúfu eða torsóttu landslagi. Til dæmis væri hægt að komast á honum yfir á þar sem brýr hefðu verið eyðilagðar.“ Síðar á þessu ári verða hafnar flugtilraunir með sérstaka herútgáfu af Pegasus.

agas@mbl.is

Þannig sjá hönnuðir Pegasus fyrir sér á flugi.
Þannig sjá hönnuðir Pegasus fyrir sér á flugi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: