Sterkur í samkeppninni um sportjeppann

Audi SQ5 er fullkominn hraðbrautarbíll enda ekki hægt að kvarta …
Audi SQ5 er fullkominn hraðbrautarbíll enda ekki hægt að kvarta yfir veg- eða vindhljóði í honum. Það eina sem heyrist er lagt urrið frá vélinni þegar krúsað er eftir þjóðveginum. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Þegar Audi kom fyrst fram á sjónarsviðið 2012 með dísilútgáfu SQ5 var hann fyrsti S-bíll þýska framleiðandans til að fá slíkan vélbúnað. Hann kom fyrst á markað snemma árs 2013 og er nú loks fáanlegur á Íslandi.

Hvort það sé vegna þess að Porsche Macan sé væntanlegur til landsins innan skamms skal ósagt látið, en báðir bílarnir byggja á sama undirvagni. Morgunblaðið reyndi bílinn helgina fyir páska og lét vel af.

Mun lægri en Q5

Það er sportlegri svipur yfir SQ5 heldur en hefðbundnum Q5 enda er hann 30 mm lægri en og á stífari gormum og sportfjöðrun. SQ5 merkið er áberandi í bak og fyrir og meira að segja á bremsudælunum líka. Athygli vekja stórir og góðir hliðarspeglar í öðrum lit en bíllinn sjálfur. Innandyra er eins og vera ber í Audi bílum, allt í fyrsta flokki. Efnisvalið er með því besta sem sést og vel hugsað um farþegana að öllu leyti. Framsætin eru rafstillt með aukafærslu undir hnésbótina til að veita betri stuðning undir fæturna á löngum ferðum. Aftursæti er hægt að færa til á sleða í hlutföllunum 40/60 og með einu handtaki má fella þau niður. Farangursrýmið er nokkuð gott fyrir bíl í þessum flokki, eða 541 lítri með fjarstýrðri opnum á afturhlera. Útsýni úr bílnum er með betra móti og kostur af stórum hliðarspeglum. Þægilegt er að hafa takka fyrir spólvörn og akstursstillingar fyrir framan sjálfskiptinguna svo ekki þarf að leita að þeim. Eins sem setja mætti út á bílinn að innan er óþarflega flókinn búnaður fyrir síma. Það tekur of langan tíma að velja númer og enginn merktur takki er til að leggja símann aftur á.

Tekur Macan í tölum

Í akstri er SQ5 sérlega skemmtilegur sportjeppi og stenst fyllilega samanburð við aðalkeppinaut sinn, Porsche Macan. Porsche sportjeppinn er þó öðruvísi að því leyti að hægt er að leyfa honum meiri yfirstýringu fyrir sportlegri akstur. Á malbikinu er SQ5 hins vegar eins og hugur manns og liggur límdur við veginn, ekki síst fyrir vel hannað Quattro-fjórhjóladrifið. Það segir sitt að það þarf talsvert að hafa fyrir því að losa bílinn þótt slökkt hafi verið á spólvörninni. Á torfærari vegum er hann að sjálfsögðu mjög stífur og heggur nokkuð auk þess að eiga auðvelt með að rekast upp undir. Þar hefur Macan aðeins forskot á SQ5 fyrir meiri drifgetu en er einnig stífur á fjöðrun eins og hann. Öflug V6T dísilvélin skilar 313 hestöflum en það sem meira er um vert er togkraftur hennar, sem er 650 Newtonmetrar allt frá 1.450 snúningum. Það fæst með tveimur túrbínum sem eru samtengdar. Auk þess er einbunukerfið sérlega öflugt og nær 2.000 bara þrýstingi áður en það skýtur allt að átta gusum fyrir hvern hring í sprengihólfinu. Ekki skemmir svo fyrir sportlegasta hljóð sem maður hefur heyrt frá dísilvél en með því að stilla á Dynamic-akstursstillinguna opnar pústkerfið fyrir hólf sem býr til meira hljóð, nokkurs konar hátalara. Svo samanburði við Porsche Macan sé framhaldið er Audi-vélin nokkuð öflugri, Macan skilar „aðeins“ 258 hestöflum og 580 Newtonmetrum, sem sést líka í upptakinu þar sem SQ5 er 1,2 sekúndum fljótari í hundraðið.

Talsvert dýrari

Þegar kemur að verðsamanburði er samanburðurinn ekki alveg eins hagstæður fyrir Audi-bílinn sem er dýrastur í þessum flokki. Grunnverð hans er 13.490.000 kr., sem er talsvert meira en 11.950.000 kr. fyrir Porsche Macan dísil. Bíllinn sem var til reynsluaksturs var með aukabúnað eins og Nappaleður í innréttingu, dráttarkrók, fjarlægðarskynjurum og Drive Select og kostaði þannig 14.040.000 kr. Bílarnir eru annars mjög svipaðir í grunnbúnaði, notast við mjög áþekkan vélbúnað svo að segjast verður eins og er að Audi SQ5 er aðeins of stífur á verðinu.

njall@mbl.is

Í kröppum beygjudansi skrikar Audi SQ5 ekki fótur nema síður …
Í kröppum beygjudansi skrikar Audi SQ5 ekki fótur nema síður sé og liggur hann einstaklega vel með Quattro fjórhjóladrifinu. Það sést glögglega á þessari mynd hvað hann leggst lítið til hliðanna þrátt fyrir átökin.
Orkubúrið í vélarsalnum er stillt fyrir kraft enda 313 hestöfl, …
Orkubúrið í vélarsalnum er stillt fyrir kraft enda 313 hestöfl, 650 Newtonmetrar og skilar bílnum á 5,1 sekúndu í hundraðið.
Áferðarfallegt mælaborðið klikkar ekki í Audi enda efnisnotkun í hæsta …
Áferðarfallegt mælaborðið klikkar ekki í Audi enda efnisnotkun í hæsta gæðaflokki sem ávallt. Símbúnaður mætti þó vera einfaldari í notkun.
Dagljósin eru díóðuljós kringum öll aðalljósin og gefa nýtískulegan svip …
Dagljósin eru díóðuljós kringum öll aðalljósin og gefa nýtískulegan svip en gaman hefði óneitanlega verið að sjá þokuljósin í sama lit.
Það eru alvöru bremsur á SQ5 eins og við reyndum …
Það eru alvöru bremsur á SQ5 eins og við reyndum nokkrum sinnum á Krýsuvíkurveginum. Bíllinn er jú fyrir hraðbrautir jafnt sem malarvegi.
Það er ekki alltaf sem maður sér þessa 300 tölu …
Það er ekki alltaf sem maður sér þessa 300 tölu á hraðamælinum, sérstaklega í sportjeppa. 313 hestöfl og Quattro-drifið standa fyrir sínu.
Framsætin er sérlega þægileg enda hægt að lengja undir hnésbótum …
Framsætin er sérlega þægileg enda hægt að lengja undir hnésbótum og ekki skemmir ísaumað Nappaleðrið fyrir. Aðbúnaður ökumanns – sem og farþega – er framúrskarandi í alla staði og frágangur til fyrirmyndar. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Audi SQ5 V6T. Kostir: Grip, vélarafl, frágangur. Gallar: Geta í …
Audi SQ5 V6T. Kostir: Grip, vélarafl, frágangur. Gallar: Geta í torfærur, símbúnaðarkerfi, verð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: