Olli blý í bensíni hærri afbrotatíðni?

Mikið af mengun í borgum má rekja til útblásturs bíla.
Mikið af mengun í borgum má rekja til útblásturs bíla. mbl.is/afp

Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir því að glæpatíðni hefur lækkað hratt í mörgum vestrænum löndum síðustu áratugi.

Á vef BBC er því velt upp að ein ástæðan geti verið að ekki sé lengur blandað blýi í bensín. Blýið bætti m.a. orkunýtingu eldsneytisins en hætt var að nota það fyrir um tveim áratugum þegar sýnt var fram á að efnið safnaðist upp í beinum, tönnum og blóði. Það getur valdið nýrnaskaða, tafið fyrir líkamsvexti, valdið blóðleysi og tjóni á taugakerfinu.

Athyglisvert er að í Bretlandi, þar sem hætt var að nota blý í bensín nokkru síðar en í Bandaríkjunum fór glæpatíðni að lækka síðar en þar í landi.

„Blý er mjög áhrifaríkt taugaeitur,“ segir dr. Bernard Gesch, líffræðingur við Oxford-háskóla. „Það hefur margvísleg áhrif á heilann og þetta hefur verið sýnt fram á í mörg hundruð líffræðitilraunum.“ Gesch segir að blý minnki magn gráa efnisins á heilasvæðum sem m.a. annast stjórn á skyndilegum viðbrögðum, hugsun og skipulagningu. Uppsöfnuð blýmengun geti orsakað slæmar ákvarðanir.

Fyrir 14 árum komst bandarískur hagfræðiprófessor, dr. Jessica Wolpaw-Reyes, að raun um að sterk fylgni var milli lækkandi glæpatíðni og þess hvenær hvert sambandsríki hætti að leyfa blý í bensín. En aðrir vísindamenn segja að ástæður afbrota séu flóknari en svo að hægt sé að finna líffræðilegar orsakir þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: