Peugeot smíðar ógnvekjandi ralldreka

Peugeot ætlar sér stóra hluti í Dakar-rallinu og hefur þess vegna smíðað dreka mikinn, Peugeot 2008 DKR með öflugri 340 hestafla hverfilblásinni dísilvél og afturdrifi.

Nú á að láta enn frekar til sín taka í akstursíþróttum því Peugeot ætlar ekki að láta sér duga met í fjallaklifri á Pikes Peak-tindinum í Coloradoríki í Bandaríkjunum í fyrra. Það afrek vann Sebastian Loeb á sérsmíðuðum Peugeot 208 T16 bíl í fyrra.

Nei, áfram skal haldið og því hefur hinn mikli stríðsfákur verið smíðaður sem sendur verður til keppni í Dakar-rallinu í byrjun næsta árs. Og með honum vonast franski bílsmiðurinn til að 2008 DKR drekinn verði fyrsti dísilbíllinn með drif á afturhjólum einvörðungu til að sigra í hinu erfiða 9.000 kílómetra ralli sem þrátt fyrir nafnið fer fram í Suður-Ameríku.

Með því að brúka ekki venjulegt fjórhjóladrif gafst Peugeot tækifæri til að smíða 18 tommu hjól með risavöxnum 37 tommu dekkjum. Telur bílsmiðurinn að þannig búinn sé meira en bætt fyrir ókosti þess að senda aflið allt til afturhjólanna einvörðungu.

Vélin verður í bílnum miðjum en hún verður með tvöfaldri forþjöppu og V6-laga.

Dakarrallið árlega hefst fimmta janúar næstkomandi í Argentínu og liggur leiðin einnig um Bólivíu og Chile en rallinu lýkur 20. janúar 2015.


 

mbl.is