Opel íhugar að hætta sölu Ampera

Opel Ampera selst afar treglega.
Opel Ampera selst afar treglega.

Sala á Chevrolet Volt hefur verið tiltölulega stöðug í Bandaríkjunum það sem af er ári. Systurbíllinn evrópski, Opel Ampera, hefur hins vegar verið á niðurleið og útlit er fyrir að smíði hans verði hætt.

Volt hefur mest selst í 1.777 eintökum á mánuði frá í mars en minnst í 1.478 eintökum.

Ampera var útnefndur bíll ársins í Evrópu 2012 og seldust þá af honum 5.200 eintök. Í fyrra dróst salan hins vegar saman um 40% þrátt fyrir mikla verðlækkun og nam innan við 3.200 eintökum 

Og það sem af er árinu í ár hefur þessi þróun haldið áfram og gott betur því salan hefur minnkað um 67% það sem af er ári. Til maíloka seldust aðeins 332 Ampera-eintök. Þetta hefur, að sögn fagritsins Automotive News Europe, orðið til þess að smíði Ampera verður hætt á næsta ári þegar 2016-árgerðin af Chevrolet Volt kemur á götuna. 

Núverandi útgáfa af Volt og Ampera eru nákvæmlega eins bílar ef framendi vélarhússins er undanskilinn. Því þykir það ekki vera til neins að framleiða nýjan Volt líka sem Opel ef aðeins innan við þúsund eintök seljast af bílnum í Opel-klæðunum.

Af hálfu Opel hefur verið varist allra frétta af máli þessu og formælandi fyrirtækisins segir það stefnu þess að tjá sig ekki um framleiðsluáform framtíðarinnar.

mbl.is