Chrysler innkallar jeppa

Táknmerki Chrysler.
Táknmerki Chrysler. mbl.is/afp

Bandaríski bílrisinn Chrysler hefur ákveðið að innkalla 792.300 jeppa til að gera við galla í kveikjurofa. Er þar um að ræða sama íhlut og leiddi til þess að General Motors (GM) innkallaði 2,6 milljónir bíla.

Innköllun nýrra bíla og eldri vegna galla eru næsta daglegt brauð og vegna þess þykja það ekki stórfréttir lengur. Í tilkynningu Chrysler, dótturfélags Fiat,  í dag segir að um sé að ræða varúðarráðstöfun. 

Sú hætta er fyrir hendi að lykillinn færist óvart úr gangstöðu rofans, til dæmis með því að bílstjóri reki hnéð í hann. Afleiðingin geti verið sú að vélin drepi á sér, bremsur missi virkni og líknarbelgir aftengist.

Losi allt af lyklakippunni

Chrysler kveðst ekki kunnugt um meiðsl af völdum óhappa tengdu þessu og segist aðeins kunnugt um eitt minniháttar slys. Innköllunin nær til nokkurra módela Jeep Commander af árgerðunum 2006 og 2007 og Jeep Grand Cherokee af árgerðunum 2005 til 2007.

Í tilkynningu hvetur Chrylser eigendur bíla sem í þessa flokka falla að passa upp á að frítt bil sé á milli kveikjulássins og lappa þeirra. Sömuleiðis að þeir fjarlægi allt af lyklakippum nema kveikjulykilinn.

GM hefur opinberlega viðurkennt að 13 mannslát hafi átt sér stað í 54 slysum sem rakin voru til kveikjulássgallans.

mbl.is