Japanskir bílar lækka á gæðalistum

Lexus lúxusbílaframleiðandinn, sem er í eigu Toyota, er í þriðja …
Lexus lúxusbílaframleiðandinn, sem er í eigu Toyota, er í þriðja sæti á gæðalista J.D. Power. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ögn minnkaði glansinn á japönskum bílmerkjum er bandaríska greiningarfyrirtækið J.D. Power and Associates birti árlegt gæðamat sitt á nýjum bílum.

Einungis þrír japanskir bílsmiðir komust í hóp 10 fremstu þegar listi ársins var birtur um miðjan júní. Til samanburðar voru þeir sex árið 2012 og fimm í fyrra, 2013.

Lexus lúxusbílaframleiðandinn, sem er í eigu Toyota, er í þriðja sæti á gæðalista J.D. Power, eða í sama sæti og í fyrra. Toyota sjálft hafnaði í fimmta sæti og Honda í áttunda.

Á sama tíma og sverfur að japönskum bílsmiðum varð framgangur kóreskra bílsmiða mikill. Hyundai og Kia bílar urðu í fjórða og sjötta sæti en þeir deildu tíunda sæti á listanum fyrir ári. Og í fimm af 23 undirflokkum gæðastuðla J.D. Power and Associates höfnuðu bílar frá Hyundai og Kia í efsta sæti.

Annað árið í röð varð Porsche í toppsætinu í mati J.D. Power á bílsmiðum. Í öðru sæti varð Jaguar.

mbl.is