Gáfnaljós og vel settir kaupa blæjubíla

Citroen DS blæjubíll á ferð.
Citroen DS blæjubíll á ferð. mbl.is/afp

Eru blæjubílar bara fyrir gáfnaljós og vel setta? Þetta mætti ætla þegar skoðaðar eru niðurstöður rannsóknar bandaríska greiningafyrirtækisins Experian Automotive.

Stofnunin segir rannsóknina leiða í ljós, að það er ekki hinn dæmigerði meðaltals bíleigandi sem kaupir blæjubíl.

Það þarf svo ekki að koma á óvart, að það eru fyrst og fremst neytendur í sólskinsríkjum, á borð við Kaliforníu, Texas og Florída sem sporti um á blæjubílum. Enda sé það sú mynd sem flestir landsmenn hafi af blæjubílseigendum, þá sé að finna á sólríkustu blettum landsins.

Reyndar fylgir með, að eftirspurn eftir bílum með blæju eða fellanlegt þak sé á niðurleið í Bandaríkjunum.

Rannsóknin náði yfir tímabilið frá áramótum og til marsloka. Kaupendur allra módela nýrra bíla á þeim tíma voru að minnsta kosti með fyrstu háskólagráðu, bachelor-gráðu. Af kaupendum blæjubíla á þeim tíma voru rúmlega 50% með þá gráðu. Og fimmtungur þeirra hafði árstekjur umfram 175.000 dollara og 11,7% áttu hús að verðmæti a.m.k. einnar milljónar dollara.

mbl.is