Rauneyðslan verði fundin út

Nú verða bílaframleiðendur að gefa rétta eldsneytiseyðslu upp.
Nú verða bílaframleiðendur að gefa rétta eldsneytiseyðslu upp.

Bandarísk eftirlitsstofnun, sem m.a. fjallar um samgöngumál (OTAQ), boðar nýjar aðferðir sem bílsmiðir verða að tileinka sér er þeir mæla eldsneytiseyðslu bíla sinna.

Frá því í hitteðfyrra (2012) hefur verið komið upp um þrjá bílaframleiðendur sem ofsagt höfðu um eldsneytissparnað nokkurra bílamódela; reyndist neysla þeirra mun meiri en upp var gefið.

Nýjum reglum, sem koma til sögunnar á næsta ári, er ætlað að leiða í ljós niðurstöður sem séu öllu nær raunverulegri notkun en fyrri aðferðir. 

„Það er grafalvarlegt þegar bílafyrirtækin bulla með eyðslutölurnar,“ segir framkvæmdastjóri Safe Climate Campaign, samtaka í Washington sem fjallar um loftslagsmengun. Hann bætti við að ef til vill hefðu fleiri bílaframleiðendur en þeir sem voru gómaðir stundað samskonar iðju, málið væri að ekkert eftirlit hefði verið með framferði þeirra haft.

Ford breytti nýlega uppgefnum eyðslutölum fyrir sex bílamódel sinna. Í nóvember 2012 urðu Hyundai og Kia að breyta upplýsingamiðum á framrúðu margra af vinsælustu bíla sinna um skilvirkni eldsneytisnotkunar, eftir að leitt var í ljós að uppgefin eldsneytisnotkun var minni en hún var í raun og veru.

mbl.is