628 börn hafa dáið í sjóðheitum bíl

Hafin er herferð til að vekja foreldra til vitundar um …
Hafin er herferð til að vekja foreldra til vitundar um hættuna á því að skilja barn eftir í brennheitum bíl.

Samgönguráðherra Bandaríkjanna, Anthony Foxx, og David Friedmann, forstjóri þjóðvegaöryggisstofnunar Bandaríkjanna (NHTSA) segja, að 628 ung börn hafi frá árinu 1988 látið lífið í sjóðandi heitum bílum sem þau hafi verið skilin eftir í.

Þetta jafngildir 38 dauðsföllum af þessu tagi á ári. Til viðmiðunar dóu 44 börn úr hjartaslagi í fyrra í sjóðheitum bílum sem þau höfðu verið skilin eftir í. Og það sem af er ári eru dauðsföllin orðin 17.

Það sem gerir illt verra, að sögn Foxx og Friedman, er að koma hefði mátt í veg fyrir öll þessi dauðsföll, hvert eitt og einasta. Um 51% slysanna voru rakin til þess að foreldrar hefðu fyrir mistök skilið börnin eftir í bílnum. Önnur 30% áttu sér stað er börn urðu innlyksa í bíl sem ekkert eftirlit var með.

Hins vegar áttu 17% dauðsfallanna sér stað eftir að börn höfðu af ásettu ráði verið geymd í bíl – vegna  erindreksturs foreldranna aðallega en ekki vegna áforma um barnsmorð.

Vandamálið, sögðu þeir Foxx og Friedman, er einnig það, að margir foreldrar átta sig ekki á því hversu hratt bíll getur hitnað að innan svo að lífshættulegt væri. Líkamshiti barna hækkaði fimm sinnum hraðar en í fullorðnum og fengju þau slag þegar líkamshiti þeirra næði 42 gráðum. Á sumrin, þegar utanhússhiti væri allt að 30°C gæti hitastigið inni í bíl orðið lífshættulegt á innan við tíu mínútum.

Halda mætti að með allri bíltækninni og skynjurum sem faldir væru um bílinn allan ætti að vera örugg leið fyrir foreldra til að fylgjast með velferð barna sinna; búnaður er varaði þá við ef þau skilji börn eftir í bíln af misgáningi. NHTSA-stjórinn Friedman segir að þrátt fyrir allar græjurnar og glingrið sé slíkur tæknibúnaður ekki fyrir hendi enn sem komið væri.

Vegna þessa hefur verið hrundið úr vör herferð sem ætlað er að stuðla að vitundarvakningu meðal foreldra svo afstýra megi sem flestum af þessum dauðsföllum. Í myndbandinu hér að neðan má sjá dæmi um það hvernig barnaspítali og slökkvilið í St. Petersburg í Flórída hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn barnadauða í brennandi heitum bílum.

FOX 13 News

mbl.is