Porsche kaupir formúlubraut

Hraðskreiðir bílar við reynsluakstur í Kyalami brautinni saginn áður en …
Hraðskreiðir bílar við reynsluakstur í Kyalami brautinni saginn áður en hún var seld Porsche á uppboði. mbl.is/afp

Þýski sportbílasmiðurinn Porsche gerði sér lítið fyrir og keypti eitt stykki kappakstursbraut í Suður-Afríku. Hún var um tveggja áratuga skeið vettvangur keppni í formúlu-1. 

Brautina, Kyalami, keypti Porsche á uppboði sl. fimmtudag fyrir tæplega 20 milljónir dollara.

Áhugamenn um akstursíþróttir eru sagðir anda léttar vegna kaupanna því þeir óttuðust að lóða- og fasteignaspekúlantar myndu kaupa brautarsvæðið og leggja það undir íbúðabyggð.

„Þeir ætla að halda brautinni og brúka til kappaksturs,“ segir talsmaður uppboðshaldarans. Hann segir möguleika á uppbyggingu á svæði utan sjálfrar brautarinnar er gæti gert svæðið í heild mun verðmætara en nú er.

Alls kepptu sjö aðilar um hnossið á uppboðinu en Kyalami-brautin var á endanum slegin Porsche fyrir 205 milljónir rand, jafnvirði um 19,5 milljóna dollara eða sem svarar 2,3 milljörðum króna.

Brautin er 4,26 kílómetra löng og fór keppni í formúlu-1 fram í henni á árunum 1967 til  1985. Var henni hætt er lagt var bann við íþróttasamskiptum við Suður-Afríku vegna kynþáttastefnu þáverandi stjórnvalda.

Heimamaðurinn Jody Scheckter vann Suður-Afríkukappaksturinn í formúlu-1 árið 1975 en hann hampaði á sínum tíma heimsmeistaratitli ökumanna. Eftir fall stjórnar hvítra og frelsun Nelsons Mandela var efnt á ný til keppni  í Kyalami 1992 og 1993. Gjaldþrot styrktarfyrirtækis kappakstursins batt enda á frekari keppni.

Síðasti sigurvegarinn í formúlu-1 í Kyalami er franski ökumaðurinn Alain Prost. Síðasti alþjóðlegi viðburðurinn fór fram árið 2010 er eitt móta HM á mótorhjólum var háð þar.

Kyalami-brautin má muna sinn fífil fegurri.
Kyalami-brautin má muna sinn fífil fegurri. mbl.is/afp
Frá Kyalami-brautinni.
Frá Kyalami-brautinni. mbl.is/afp
Frá Kyalami-brautinni.
Frá Kyalami-brautinni. mbl.is/afp
mbl.is