986 hestafla McLaren P1 GTR

Með slíkri yfirbyggingu vekur 986 hestafla útgáfan af McLaren P1 …
Með slíkri yfirbyggingu vekur 986 hestafla útgáfan af McLaren P1 GTR tvímælalaust athygli.

Sportbílasmiðurinn breski, McLaren, hefur nú kynnt nýja útgáfu af P1 GTR-bílnum sem hugsaður er til aksturs á kappakstursbrautum fyrst og fremst.

Og það er sem McLaren finnist það ekki duga að vera með 903 hestöfl í vélarhúsinu því þessi sérútgáfa af McLaren P1 GTR verður með 986 hestafla vél. Miðað við eiginþyngd undir 1.400 kílóum ætti honum að vera kleift að komast úr kyrrstöðu í 100 km ferð á um 2,5 sekúndum.

Það verður ekki fyrir hvern sem er að komast yfir grip af þessu tagi því hann kostar 1,98 milljónir sterlingspunda, eða sem svarar um 390 milljónum króna.

Þessi nýji ofurbíll verður sem sagt mun hraðskreiðari og fókuseraðri til kappaksturs en hinn „venjulegi“ P1 GTR ofurtvinnbíll. Smíði hans hefst í júní á næsta ári, þegar öllum 375 áformuðum eintökum af P1 götubílnum hafa verið framleidd.

Frumeintakið verður að öllum líkindum frumsýnt á glæsibílasýningunni í Pebble Beach í Kaliforníu 15. ágúst næstkomandi.

P1 GTR bíllinn fetar í fótspor McLaren F1 GTR sem smíðaður var fyrir 20 árum eða svo. Yfirbyggingin er mun djarftækari, með hraustlegum afturvæng og loftdreifi í ætt við kappakstursbíla. Hjólhúsin eru breiðari og hliðarsvuntur stuðla að því að vængpressa vrði meiri og þar með rásfesta í beygjum.

Dekkin verða stærri en á tvinnbílnum og undan afturendanum teygja sig tvö stór púströr.

Staðal P1-bíllinn er sem fyrr segir með 903 hesta aflrás, þar af fær hann 727 hestöfl frá 3,8 lítra vél með tvöfaldri forþjöppu og 176 hesta frá rafmótor.

Ekkert hefur verið látið uppi um hugsanlegan fjölda framleiðslubíla. Hermt er að McLaren muni einungis selja þennan ofur ofurbíl mönnum sem áður hafa keypt núverandi P1 götubíl. Eigendur nýja bílsins fá aðgang að bílhermum formúluliðs McLaren, íþróttaþjálfurum liðsins og sameiginlegum akstursdögum á kappakstursbrautum víða um heim.

mbl.is