AC/DC söngvari í kappakstri

Brian Johnson við Minibílinn sem hann mun keppa á í …
Brian Johnson við Minibílinn sem hann mun keppa á í Crofts um helgina.

Brian Johnson er betur þekktur sem söngvari þungarokksveitarinnar AC/DC en kappakstur. Engu að síður hefur hann líklega eytt meiri tíma undir stýri á keppnisbrautum en að þenja rödd sína á tónleikum.

Kappakstur hefur verið áhugamál og frístundaiðja Johnson frá því hann fór og horfði á kappakstur MG-bíla í Croft-brautinni í Norður-Jórvíkurskíri á unglingsárunum. Var hann heltekinn og hefur duflað við keppni sjálfur síðan.

Snýr hann nú um helgina aftur til Croft og keppir þar á Minibíl sínum frá árinu 1964 í Croft Nostalgia kappakstrinum en þar er teflt fram gömlum bílum sem ekki eru endilega búnir til kappaksturs.

Brian Johnson segist sjálfskapaður bíladellukarl en hann hefur undanfarna tvo áratugi lagt fyrir sig keppni í fornbílakappakstri í Bandaríkjunum og Evrópu, einkum í flokki fræga fólksins. Meðal annars í sólarhringskappakstri í Daytona í Flórída árið 2012 þar sem hann hafnaði í 12. sæti á Riley-BMW bíl.

Í bók sem hann sendi frá sér árið 2009 um bílamennsku sína, „Rockers and Rollers“, kemur fram að fyrsta bílinn eignaðist Johnson á átjánda aldursári. Sá var af gerðinni Ford Popular og aðeins þriggja gíra og með einni rúðuþurrku á framrúðunni. Hann segist hafa ekið bílnum framhjá konunni sem rukkaði um aðgangseyri í brautarhliðinu án þess að stoppa því hann og tveir félagar hans hafi ekki átt peninga til að borga sig inn. Það ætti hann hins vegar ekki að muna um nú.

mbl.is