Farangur getur verið varasamur

Fara verður varlega í að hlaða þakbox og farangursrými svo …
Fara verður varlega í að hlaða þakbox og farangursrými svo það stofni ekki öryggi bíls og ferðalanga í hættu.

Eftir því sem bílarnir verða minni gengur á pláss fyrir farangur og getur það komið sér illa þegar fara skal langferð í frí; í sumarbústaðinn eða tjaldferð svo nokkuð sé nefnt. 

Þá er helsta ráðið að fá sér „ömmubox“ á toppinn, box sem hengja má aftan á bíl,  eða litla kassakerru til að draga aftan í bíl. En slíkar björgunaraðgerðir geta orkað tvímælis þar sem þær gætu raskað öryggi bíls og ferðalanga.

Víst er betra að fríið séu hættulaust og því nauðsynlegt að kynna sér hvað hægt er að bjóða bíl varðandi hleðslu og frágang farangurs. 

Box sem fest er aftan á bíl veitir miklu minna loftviðnám en  ömmubox, sem reynir verulega á bíl vegna loftmótstöðunnar. Þótt báðir kostir séu góðir er ýmislegt sem hafa ber í huga við notkun þeirra.

Þannig hefur sænska tryggingafélagið Folksam efnt til aksturstilrauna með þakbox og yfirfullt farangursrými. Það þarf ekki að koma á óvart að slíkur akstur getur verið lífshættulegur, sé ekki farið rétt að hlutunum.

Það er til dæmis takmörk fyrir því hvað miklu má hlaða í þakboxið. Þau eru ekki mörg kílóin þar þegar bíllinn byrjar að missa jafnvægi sem kæmi sér illa ef t.d. sveigja þarf snögglega vegna hættuástands.

Hið sama gildir um ofhleðslu í farangursrými, þegar þyngdarpunkturinn hefur hækkað og færst aftur eftir bílnum. Þá missa menn t.a.m. rétta virkni stöðugleikastýringar (ESC). Hún getur alla jafna hindrað  skrens ef  beygja þarf skarpt en þó ekki í illa hlöðnum bílum. Í þeim kann hún ekki að bregðast rétt við. Séu menn á enn eldri bíl með engri stöðugleikastýringu er ástæða til að vera enn varkárari við hleðslu hans.

Í neytendarannsókn í Þýskalandi, sem bíleigendasamtökin ADAC stóðu meðal annars að, kom fram, að nærbeint samband væri á milli verðs þakboxa og gæða þeirra. Það er eins gott að taka þau af strax í ferðalok því bíllinn þarf 20% meira eldsneyti með það á þakinu á 130 km/klst hraða en ella.

 

mbl.is