Ekki er sama hvernig jarðefni eru flutt

Brýnt er að ganga vel frá farmi á vöruflutningabifreiðum, ekki …
Brýnt er að ganga vel frá farmi á vöruflutningabifreiðum, ekki síst jarðefnum, svo ekki skapist hætta eða ónæði af fyrir aðra vegfarendur – hver sem fararskjóti þeirra kann að vera. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bílablaðinu barst í liðinni viku ábending um að flutningabílar með tengivagna sem fara reglulega um þann kafla Suðurlandsvegar sem kenndur er við Sandskeið, ækju þar oft og iðulega með fullfermi án þess að breitt væri yfir.

Fyrir bragðið rigndi oft sandi, mold og ryki yfir fólksbíla sem leið ættu um sama veg. Lesandi velti því fyrir sér hvort ekki væru reglur í gildi um slíka flutninga og Bílablaðið kannaði málið.

Tryggja skal frágang farms vel

Að sögn Þórhildar Elínardóttur, upplýsingafulltrúa Samgöngustofu, er bæði í lögum og reglum að finna ákvæði um frágang bílfarma.

„Í 3. mgr. 73. gr. umferðarlaga segir að farm skul flytja þannig, að eigi hafi í för með sér hættu fyrir menn eða valdi munatjóni. Þess skuli enn fremur gætt, að eigi sé hætta á að farmur dragist eftir akbraut eða falli á hana, valdi rykmekki eða svipuðum óþægindum, umferðartruflun eða óþarfa hávaða,“ segir Þórhildur í skriflegu svari til Bílablaðsins. Ennfremur segir hún:

„Á grundvelli 73. gr. umferðarlaga hefur verið sett reglugerð nr. 671/2008 um hleðslu, frágang og merkingu farms. Þar er að finna nánari fyrirmæli er að þessu lúta. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að þannig skuli frá farmi gengið að ekki sé hætta á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða í akstri. Einnig kemur fram að farmur, sem ryk getur stafað frá eða fallið getur af ökutæki, skuli bundinn með bindiefni, (t.d. vatni) eða yfirbreiðslu.

Í 8. gr. reglugerðarinnar er síðan að finna fyrirmæli um frágang á farmi sem er jarðefni eða önnur laus efni. Er ákvæðið svohljóðandi:

8. gr. Jarðefni og önnur laus efni.

Farmur sem er jarðefni, svo sem mold, sandur, grús, grjótmulningur eða önnur laus efni má, svo framarlega sem hann jafnast út þvert yfir farmrýmið, ekki ná hærra:

a. en nemur efri brún á hliðarskjólborði eða hliðstæðum búnaði,

b. en nemur efri brún framgafls,

c. aftan til á farmrýminu en nemur línu sem dregin er upp frá efri brún afturgafls í 45° horni við pall farmrýmisins í láréttri stöðu.

Þegar farmur, sem er jarðefni, þar sem einingar eru stærri en um það bil 1000 sm³, t.d. grjót, hraun o.s.frv., má þyngdarpunktur hverrar farmeiningar ekki liggja hærra:

a. en nemur efri brún á hliðarskjólborði eða hliðstæðum búnaði,

b. en nemur efri brún framgafls,

c. aftan til í farmrýminu en nemur línu sem dregin er upp frá efri brún afturgafls í 45° horni við pall farmrýmisins í láréttri stöðu.“

Hvað eftirlit með slíku snertir segir Þórhildur að eftirlit með því að reglum um hleðslu, frágang og flutning á farmi sé framfylgt sé bæði á höndum lögreglu og umferðareftirlits Samgöngustofu, sbr. 68. gr. umferðarlaga. „Þess má geta að undanfarið hafa eftirlitsmenn Samgöngustofu stöðvað ökumenn vegna þess konar brota sem um ræðir,“ bendir Þórhildur á.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: