Einn norskur og fjórir íslenskir sigurvegarar

Mynd: Jakob C.

Lokaumferð Íslandsmótsins í torfæru voru keyrðar á Akureyri um helgina, auk þess sem Evrópumeistaramótið FIA NEZ var haldið samhliða.

Hörð barátta á Evrópumeistaramóti

Mikil spenna var í Evrópumeistaramótinu, en átta Norðmenn tóku þátt auk íslenskra ökumanna. Keppendur voru um 40 í þremur flokkum.

Í flokki sérútbúinna voru Ólafur Bragi Jónsson, á Refnum, og Snorri Þór Árnason, á Kórdrengnum, í sérflokki svo að segja allt mótið og skiptust á að vera með forystu. Að lokum fór það þó svo að Ólafur Bragi stóð uppi sem sigurvegari annað árið í röð. Snorri skipaði annað sætið og Arne Johannessen frá Noregi lendi í því þriðja. 

Í sérútbúna götubílaflokknum voru þrír Íslendingar á móti 5 Norðmönnum, sem höfðu betur að þessu sinni. Roger Fossen sigraði, í öðru sæti var Jorgen Paulsen og í því þriðja Pal Blesvik.

Bjarki Reynisson, á Dýrinu, var svo í 4. sæti og Jón Vilberg Gunnarsson í því fimmta. Þér létu hins vegar báðir meira til sín taka í Íslandsmótinu.

Mikil spenna í götubílaflokknum

Eknar voru tvær síðustu umferðir Íslandsmótsins, sú fyrri á laugardeginum og sú seinni á sunnudeginum.

Úrslit fóru nokkurn veginn eins og búist var við, en efstu ökumenn í hverjum flokki, yfir allt mótið, voru:

Í flokki sérútbúinna bíla:
1. Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum
2. Helgi Gunnarsson á Gærunni
3. Elmar Jón Guðmundsson á Heimasætunni

Í flokki sérútbúinna götubíla:
1. Jón Vilberg Gunnarsson á Snáðanum
2. Bjarki Reynisson á Dýrinu
3. Aron Ingi Svansson á Zombie

Í flokki götubíl:
1. Ívar Guðmundsson á Kölska
2. Steingrímur Bjarnason á Strumpnum
3. Stefán Bjarnhéðinsson á Kalda

Mótshald var í höndum Bílaklúbbs Akureyrar. Veðrið var frekar leiðinlegt á laugardeginum en þeim mun betra á sunnudeginum, eins og sést í þessum myndböndum sem myndatökumaðurinn Jakob Cecil Hafsteinsson tók:

mbl.is