Fertugsafmæli Volvo 240

Volvo 244
Volvo 244 Wikipedia.org

Á þessum degi, fyrir 40 árum, sýndu Volvo-verksmiðjurnar blaðamönnum nýjan bíl sem átti eftir að slá í gegn. Bíllinn var að sjálfsögðu Volvo 240, sem átti eftir að seljast í um 2,8 milljónum eintaka þau 19 ár sem hann var framleiddur.

Réttur bíll á réttum tíma

Árið 1974 var allt að gerast í Svíþjóð. ABBA vann Eurovision-söngvakeppnina með Waterloo, Björn Borg sló rækilega í gegn í tennisheiminum, aðeins 18 ára gamall, og Volvo kynnti til sögunnar bíl sem ... við fyrstu sýn var ekki svo frábrugðinn hinum átta ára gamla 140.

Við nánari skoðun kom þó í ljós að um gjörbreyttan bíl var að ræða, einkum að framanverðu. Útlitið dró dám af VESC-hugmyndabílnum, sem var notaður til að kynna nýjungar í öryggismálum tveimur árum áður. 

Stuðararnir voru miklu stærri en í eldri bílnum, og bíllinn var alls 13 cm lengri en sá gamli. Framljósin voru öðruvísi og það sama má segja um margt innanstokks, þar á meðal höfuðpúðarnir, en auk þess var ný MacPherson-fjöðrun og tannstangarstýri í 240 bílnum.

Einnig var kynnt ný vél með bílnum, B21, sem skilaði 97 hestöflum með blöndungi en 123 hestöflum með beinni innspýtingu.

Einn bíll, margar útgáfur

Í gegnum árin voru smíðaðar margar útgáfur af Volvo 240. Grunngerðirnar voru 242 (2 dyra), 244 (4 dyra) og 245 (skutbíll) en auk þess lagði Bertone hönd á plóg og hannaði 262C „coupé“-bíl sem var seldur í tæpum 7.000 eintökum. 

Öllu fyrirferðarmeiri voru 264TE og 245T, en þeir voru báðir 70 cm lengri en upprunalegi bíllinn. Sá fyrrnefndi var lúxuslimma en sá síðarnefndi var gríðarlangur skutbíll sem meðal annars var notaður sem skólabíll í sveitum Svíþjóðar.

Volvo 240 Turbo naut töluverðar velgengni sem rallbíll, ekki síst árið 1985 þegar Thomas Lindström og Gianfranco Brancatelli unnu evrópska ETC-rallið.

Öruggasti bíllinn?

Volvo 240, og síðar 260, hlutu fjöldamörg verðlaun og viðurkenningar fyrir öryggismál. Í Bretlandi fékk Volvo viðurkenningu fyrir viðleitni til umferðaröryggis sem gekk miklu lengra en lög kváðu á um.

Árið 1976 var Volvo 240 valinn sem viðmið fyrir áframhaldandi þróun í af NHTSA-umferðaröryggisstofnuninni í Bandaríkjunum. Í lok níunda áratugarins var Volvo 245 öruggasti bíllinn í sínum flokki í Bandaríkjunum.

Síðasti bíllinn rúllaði af færibandinu í Gautaborg hinn 5. maí 1993, eftir 19 ár í framleiðslu. Velgengni bílsins var meiri en nokkurn hafði grunað og enn þann dag í dag er Volvo 240 vinsæll meðal bílaáhugamanna, ekki síst með forþjöppuvélinni.

Volvo 140, forveri 240.
Volvo 140, forveri 240. Wikipedia.org
Volvo 242
Volvo 242 Wikipedia.org
Volvo 245
Volvo 245 Wikipedia.org
Volvo 245T
Volvo 245T
Volvo 246TE
Volvo 246TE Wikipedia.org
Volvo 262C
Volvo 262C Wikipedia.org
Volvo VESC hugmyndabíllinn. Margt úr honum var notað í 240.
Volvo VESC hugmyndabíllinn. Margt úr honum var notað í 240. Wikipedia.org
mbl.is