Mikið val nýrra bíla hjá Brimborg

Citroën fer alveg nýjar leiðir í hönnun og smíði C4 …
Citroën fer alveg nýjar leiðir í hönnun og smíði C4 Cactus. mbl.is/PSA Peugeot-Citroen

Það er margt spennandi framundan hjá okkur í haust og vetur,“ segir Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar, en þar á bæ verður nokkuð um nýjungar í bílaframboði í haust og vetur. Fer Brimborg með umboð hér á landi fyrir Ford, Volvo, Mazda og Citrocn.

„Af Ford er það helst að frétta að við munum frumsýna nýjan Ford F350 í haust á frábæru verði. Við erum búin að afhenda tvo bíla sem voru sérpantaðir og fleiri sérpantanir eru á leiðinni en hefðbundin frumsýning er fyrirhuguð í október. Við fáum einnig nýju kynslóðirnar af Ford Focus og Ford Mondeo nær áramótum og m.a. verður nýr Mondeo í boði í tengil-tvinn útgáfu. Og í framhaldi af því áformum við svo frumsýningu á hinum nýja Ford F150, sem nánast alfarið er smíðaður úr áli og hefur fengið góðar viðtökur erlendis, og hinum nýja Ford Edge-jepplinginn í framhaldi af því,“ segir Egill.

Focus fær andlitslyftingu, snyrtilegra innanrými og sparneytnari vélar. Nýr Mondeo markar kynslóðaskipti og býðst hann með úrvali sparneytinna Ecoboost-véla og sem tvinnbíll eða tengiltvinnbíll.

Edge í lúxusgeirann

Jepplingurinn Edge er væntanlegur á götuna snemma næsta ár, en þar er á ferðinni flaggskip sem Ford stefnir með inn í lúxusgeira jeppamarkaðarins. Verður hann með margvíslegan tæknibúnað, þ.ám. 10 tommu snertiskjá fyrir upplýsingakerfin, rúmgott fólksrými og allt að 1.788 lítra farangursrými. Edge verður fáanlegur bæði dísil og bensín.

„Í haust munum við frumsýna nýja Volvo V40 CC með fjögurra sentímetra meiri veghæð en venjulegur V40. Svo er ný kynslóð Volvo XC90 væntanleg næsta vor en þessi bíll verður heimsfrumsýndur 27. ágúst í Stokkhólmi og kemur svo á götuna árla 2015. Hann er sagður verða með mestu lúxusinnréttingu Volvo til þessa og í mælaborðinu verður 9,3 tommu snertiskjár er leysir alla takka þar af hólmi. Loks verður hann með kraftmiklum en ótrúlega sparneytnum vélum þar sem eyðslan verður allt frá 2,5 lítrum á 100 km. Ótrúlegar tölur,“ segir Egill.

Öruggasti bíllinn á vegunum

Nái áætlanir Volvo fram að ganga verður XC90 einn öruggasti bíllinn á vegunum. Hann mun bjóða upp á „yfirgripsmesta og tæknilega fullkomnasta öryggisbúnað sem völ er á í bílaframleiðslu sem staðalbúnað,“ sagði í tilkynningu frá Volvo í sumar. Tæknibúnaði bílsins er ætlað að gera þá sýn Volvo að veruleika, að enginn bíði bana eða slasist alvarlega í Volvobíl frá og með árinu 2020. Þar á meðal eru búnaður til að vernda ferðalanga fyrir útafakstri og sjálfvirk gatnamótabremsa sem afstýrir eða dregur mjög úr tjóni í árekstri á gatnamótum; hvort tveggja sagt vera nýjungar í bílsmíði.

„Nýr Mazda2 er svo væntanlegur til okkar í byrjun næsta árs. Hann verður líkt og Mazda6, Mazda3 og Mazda CX-5 hannaður í anda Kodo-hönnunarinnar og búinn SKYACTIV-spartækni Mazda. Mazda hefur verið að gera gríðarlega góða hluti og þessi bíll mun styrkja vörulínuna þeirra enn frekar,“ segir Egill en nýr Mazda2 er uppfærður að gæðum og frágangi en heldur góðum aksturseiginleikum forverans.

Spennandi jepplingur

„Síðast en ekki síst er Citroën að koma með hinn frumlega hannaða en tilgerðarlausa C4 Cactus-jeppling sem er einkar spennandi og algjörlega nýr bíll frá grunni. Hann er nokkurs konar bræðingur stallbaks og jeppa, búinn nýjustu tækni og frábrugðinn öðrum bílum. Á báðum hliðum, fram- og afturenda eru óvenjulegir loftpúðar sem koma í veg fyrir rispur og dældir í lakkinu ef rekist er utan í bílinn. C4 Cactus er meðal annars fyrir þá sem vilja flottan bíl sem sker sig úr fjöldanum en er samt praktískur, rúmgóður, með afar nútímalegt mælaborð og einstaklega sparneytinn. Við búumst við að fá hann í lok þessa árs. Við eigum svo von á nýjum Citroën C1 á svipuðum tíma,“ segir Egill Jóhannsson að lokum.

Ford stefnir með Edge inn í lúxusgeira jeppamarkaðarins.
Ford stefnir með Edge inn í lúxusgeira jeppamarkaðarins.
Nýr Mazda2 er væntanlegur í Brimborg í byrjun næsta árs.
Nýr Mazda2 er væntanlegur í Brimborg í byrjun næsta árs.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: