Birtist aftur eftir 15 ára hlé

Midual-mótorhjólið er hið glæsilegasta enda útlitið svolítið retró eins og …
Midual-mótorhjólið er hið glæsilegasta enda útlitið svolítið retró eins og svo vinsælt er í hönnun margra mótorhjóla í dag.

Það eru ekki margir sem þekkja Midual-mótorhjólamerkið frá Frakklandi.

Merkið var stofnað af Olivier Midy árið 1992 og er best þekkt fyrir að kynna nýja gerð götuhjóls árið 1999 með sérstökum mótor. Vélin var hefðbundin Boxer-vél en í stað þess að velja að setja hana þversum eins og BMW gerir er hún langsum og hallar niður, svo að annar strokkurinn snýr niður að framdekkinu en hinn aftur í stél.

Midual 900 vakti þess vegna mikla athygli á Salon du Deux-Roues-mótorhjólasýningunni í París en svo ekki söguna meir. Midual-merkið skorti fjármagn til að koma sér betur á framfæri. Þess vegna vakti það nokkra athygli þegar merkið kom aftur fyrir sjónir almennings á mótorhjólasýningu í Carmel í Kaliforníu í síðustu viku.

Nýjasta tækni í gamaldags útliti

Hjólið sem var sýnt er kallað Midual Type 1 og notar sömu Boxer-vél og áður þótt hún hafi verið endurhönnuð smávægilega. Vélin hallast 25° niður eins og áður og að sögn talsmanns Midual lækkar það þyngdarpunkt hjólsins. Vélin er 1036 rsm og skilar 100 Newtonmetra togi við 5.300 snúninga en hámarksafl næst við 8.000 snúninga þegar vélin nær 106 hestöflum. Grind hjólsins er úr áli og er tankurinn eins og hluti af grindinni. Ofan á honum eru nokkrir analogmælar sem gefa hjólinu sérstakt en um leið flott útlit.

Fjöðrunin er ekki af verri endanum en að framan er 43 mm Öhlins og að aftan stakur Öhlins TTX36-dempari. Bremsurnar eru frá Brembo, tvöfaldir stimplar allan hringinn. Þar sem Midual er nú franskt merki var ekki annað hægt en að bjóða hjólið á Michelin-dekkjum en 17 tommu felgurnar eru með teinum á gamla mátann. Midual hefur verið að prófa nýja hjólið síðan í fyrra en líklega verður þó ekki hægt að kaupa gripinn fyrr en árið 2016. Midual áætlar að smíða 35 eintök af Type 1 og er þegar farið að taka við pöntunum. Eintakið verður þó ekki á allra færi því að verðið er nálægt 22 milljónum. Inni í því er þó fjögurra ára ábyrgð sem inniheldur alla þjónustu, meðal annars þá að hjólið er sótt og sent hvar sem eigandinn býr. njall@mbl.is

Mælaborðið þykir sérlega stílhreint og vel útfært með gamaldags analogmælum …
Mælaborðið þykir sérlega stílhreint og vel útfært með gamaldags analogmælum á ekta við, í þessu tilfelli ástralskri eik.
Boxer-vélin í Midual-hjólinu er langsum í grindinni og hallast 25° …
Boxer-vélin í Midual-hjólinu er langsum í grindinni og hallast 25° niður á við. Hún skilar 100 Newtonmetra togi og 106 hestöflum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: