Einfalt ráð Subaru bjargar forþjöppum frá skemmdum

Verkfræðingar hjá Subaru vildu finna leiðir til að verja túrbínur …
Verkfræðingar hjá Subaru vildu finna leiðir til að verja túrbínur í bílum eins og Subaru Impreza fyrir ofhitnun. Ekki mun af þeirri kælingu veita. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þeir sem ekið hafa bílum með forþjöppum kannast eflaust við að hafa þurft að leyfa bílunum að vera í gangi í nokkrar mínútur eftir að vel heitum bíl hefur verið lagt.

Sé það ekki gert er hætta á að olían í forþjöppunni þykkni og brenni, sem getur eyðilagt forþjöppuna. Stjórnendur Subaru-verksmiðjanna áttuðu sig á því að þeir yrðu að finna leið framhjá þessu vandamáli, enda forþjöppurnar mikilvægur hluti margra Subaru-bíla. Lausnin sem þeir duttu niður á hefur trúlega bjargað ófáum forþjöppum frá því að eyðileggjast.

Hitna gríðarlega

Forþjöppur nota útblásturinn frá vélinni til að snúast, og þjappa lofti með bensínblöndunni þannig að meiri orka fæst úr vélinni. Forþjöppurnar hitna gríðarlega, enda getur snúningshraðinn í þeim náð 100.000 snúningum á mínútu. Hitinn sem verður til við notkun þeirra er slíkur að olían sem smyr gangverkið myndi breytast í eitthvað sem líktist helst hamborgara sem hefði verið hafður á grillinu í klukkutíma eftir að hann var tilbúinn. Til að kæla forþjöppuna er þess því gætt að olían flæði hratt um hana svo hún hitni ekki of mikið. Þegar drepið er á vélinni hættir olían skyndilega að flæða, forþjappan hættir að snúast, og olían getur þornað upp og skemmt forþjöppuna. Sama gildir um vatn í vatnskælingu, sé hún til staðar. Þess vegna hafa framleiðendur mælt með því að vélin sé höfð í gangi í einhverjar mínútur eftir að ökuferðinni er lokið, á meðan forþjappan kælir sig niður.

Döggin kælir forþjöppuna

Þetta þótti bílahönnuðunum hjá Subaru-verksmiðjunum óheppilegur hönnunargalli og leituðu því leiða til að komast hjá þessu vandamáli. Lausnin sem þeir duttu niður á er að nota kælivatnið af vélinni.

Þeir breyttu kælikerfi vélarinnar þannig að efsti hluti þess liggur ofan á forþjöppunni. Þetta þýðir að þegar drepið er á heitri vélinni sýður vatnið í kælikerfinu. Gufan stígur upp í þennan efsta hluta kælikerfisins og þegar hún kólnar aftur lekur vatnið í gegnum forþjöppuna og kælir hana niður. Þar með helst hitinn í forþjöppunni innan þeirra marka sem olían þolir og ver forþjöppuna fyrir skaða.

Tæknin sem verkfræðingar Subaru notuðu til að kæla niður forþjöppuna var svo sem ekki ný af nálinni, en þeir breyttu henni til að hún hentaði til að kæla niður vélarnar í þessari vinsælu bílategund. njall@mbl.is

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: