Nýr Volvo XC90 heimsfrumsýndur í gær

Nýr Volvo XC90.
Nýr Volvo XC90.

Volvo frumsýndi í gær nýjan Volvo XC90, en bíllinn markar stór tímamót hjá framleiðandanum. 

Á undanförnum mánuðum hefur Volvo gefið út ýmsar upplýsingar um bílinn, svo sem um öryggisstaðalbúnað hans sem fyrirtækið segir að sé sá fullkomnasti á markaðnum. Þá mun hlutfall afls, eyðslu og CO2-losunar vera áður óþekkt.

Innanrými bílsins hefur verið sagt bera með sér meiri lúxus en áður hefur sést hjá Volvo og í gær var svo ytra útlit bílsins afhjúpað í Stokkhólmi. Glöggir lesendur munu sjá að um algjörlega nýja hönnunarlínu er að ræða, sem mun hafa áhrif á hönnun komandi kynslóða Volvo-bíla.

„Dagurinn í dag er einn mikilvægasti dagur í sögu okkar. Við erum ekki einungis að frumsýna nýjan bíl, heldur erum við að endurskilgreina vörumerkið okkar. Þessi dagur markar tímamót fyrir fyrirtækið okkar. Nýi Volvo XC90 mun gefa tóninn fyrir komandi kynslóðir Volvo-bíla,“ er haft eftir Håkan  Samuelsson, forstjóra Volvo Car, í fréttatilkynningu frá Brimborg.

Lesa má meira um nýjan Volvo XC90 hér.

mbl.is