Laugardagsdriftið: M4 tekur sviðið

Nýr BMW M4 þarf að standa undir miklum væntingum. Þó svo að hann sé sá fyrsti sinnar tegundar þarf hann að halda á lofti merkjum M3 sportbílanna, sem eiga sér langa sögu.

Ennfremur eru aðdáendur M-bíla BMW ekki beinlínis fólk sem sættir sig við hvað sem er. Þannig eiga sumir bágt með að taka nýja tölustafinn í sátt, en BMW hefur skipt 3-línunni upp þannig að tvennra dyra bílarnir (og blæjubílarnir) tilheyra hinni nýju 4-línu.

Þannig verður áfram hægt að fá M3 með fernum dyrum, en viljirðu sama bíl með tvennum dyrum þarftu að hækka þig um tölustaf. Eflaust eru mjög góðar ástæður fyrir þessari breytingu, hverjar sem þær eru.

Til að ítreka að M4 tilheyri vissulega M-ættartrénu hefur BMW gefið út ljómandi snoturt myndband, sem fylgir hér, en það skartar 37 BMW M3 og M5 bílum (sem allir eru í einkaeigu) og vitaskuld einum M4.

mbl.is