Ford Fusion bíll ársins í Saudi-Arabíu

Ford Fusion bætir á sig blómum.
Ford Fusion bætir á sig blómum.

Lengi getur Ford Fusion blómum á sig bætt og um helgina bættist eitt slíkt við er bíllinn var útnefndur „Bíll ársins“ í Saudi-Arabíu.

Það var bílaritið Saudi Auto sem fyrir viðurkenningunni stóð og segir ritstjóri blaðsins að Fusion hafi skarað fram úr öðrum bílum á sviði almennrar hönnunar, þæginda, öryggis, eldsneytishagkvæmni, meðfærileika, afkastagetu, gagnsemi og akstursánægju, svo eitthvað sé nefnt.

Í valinu tóku þátt sérfræðingar um bíla á Persaflóasvæðinu en ekki fylgir fregnum hvernig öðrum bílum reið af í keppninni um þessa útnefningu.

Hinn nýi Ford Fusion er sagður hafa átt aukinni velgengni að fagna í Miðausturlöndum. Frá því honum var hleypt af stokkum árið 2012 hefur bíllinn hlotið fjölda viðurkenninga. Þar á meðal valdi tímaritið US News and World Reports hann sem bestu kaupin árin 2012 og 2013 í flokki meðalstórra bíla.   

Ennfremur komst hann á hinn eftirsótta lista Kelly Blue Books  yfir 10 bestu fjölskyldubílana árið 2013. Aukinheldur hlaut hann viðurkenningar fyrir nýstárlegan tæknibúnað í bíl á CES-tæknisýningunni og tvennar viðurkenningar á NAIAS sýningunni 2012.

mbl.is