Ofurbíll meðal ofurbíla

Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé …
Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé að ræða, en hver veit hvað gerist í framtíðinni?

Ofurbíla þekkjum við flest sem draumabíla sem ná ofurmannlegum hraða og kosta ofurmannlegar fjárhæðir. Hvað fæst þá ef hannaður væri hugmyndabíll á sviði ofurbíla? Ferrari F80 er ein útkoman.

Hugmyndabílar (e. concept cars) eru fantasíur bornar á borð af bílahönnuðum til að sýna fram á langsóttar hugmyndir sem væntanlega munu skila sér að einhverju leyti í framleiðslubíla tiltekins bílamerkis á næstu misserum eða árum. Hugmyndabílarnir eru sýndir á stóru bílasýningunum til að kynda undir hugarflugi og jafnvel draumórum sýningargesta og koma áleiðis ákveðnum skilaboðum um það sem viðkomandi bílaframleiðandi ætlar sér í náinni framtíð.

Allt um það, þegar framleiðandi draumabíla á borð við Ferrari hendir í eitt stykki almennilegan hugmyndabíl er ljóst að útkoman er víðsfjarri öllum veruleika. F80 nefnist hugmyndabíll sem ítalski hönnuðurinn Adriano Raeli teiknaði og allt við þann bíl – útlitið og aflstölfræði – er þesslegt að bíllinn á hvergi heima nema í villtustu draumum litla alþýðumannsins.

Óraunverulegir kraftar

Eins og meðfylgjandi myndir sýna er bíllinn í hæsta máta framúrstefnulegur útlits en það er þó fyrst þegar afltölurnar eru skoðaðar sem fantasían tekur við. Vélin, sem er twin túrbó V8, byggist á KERS-tækninni sem runnin er undan rifjum verkfræðinga Ferrari og skilar litlum 1.200 hestöflum. Þau fleygja svo aftur bílnum í 100km/klst hraða á 2,2 sekúndum sem mun óhjákvæmilega valda ökumönnum þokkalegri iðraþjöppu, fái þeir á annað borð færi á að taka gæðinginn atarna til kostanna. Og hámarkshraðinn? Hann verður rétt undir 500 km/klst.

Þegar mesti móðurinn er af manni runninn eftir dagdraumana tengda þessum svakalega bíl er rétt að rifja upp að hann er enn á hugmyndastigi og ekkert í hendi um framleiðslu hans sem stendur. En rétt eins og Enzo og LaFerrari fengu bílaáhugamenn til að gapa þegar þeim var rúllað af færibandinu hjá Ferrari er aldrei að vita hverju hinir metnaðargjörnu Ítalir taka upp á næst. Það má allavega láta sig dreyma – og vona.

jonagnar@mbl.is

Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé …
Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé að ræða, en hver veit hvað gerist í framtíðinni?
Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé …
Allar línur F80 bera þess vitni að um hugmyndabíl sé að ræða, en hver veit hvað gerist í framtíðinni?
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: