Hleðslustöð á Selfossi í samband

Áfylling á Selfossi (t.v.): Guðmundur Ármann Pétursson, Sigurður K. Pálsson …
Áfylling á Selfossi (t.v.): Guðmundur Ármann Pétursson, Sigurður K. Pálsson frá Olís, Ásdís Gíslason markaðsstjóri ON, Jón Halldórsson, forstjóri Olís og Brynjar Stefánsson frá ON.

Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið þá á hleðslustöð Orku náttúrunnar, framleiðslu- og sölufyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, sem opnuð var í vikunni.

Þetta er áttunda stöðin af tíu sem ON mun halda úti á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON á Bæjarhálsi 1, Reykjavík, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind í Kópavogi, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við IKEA í Garðabæ og í Borgarnesi.

Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi, opnaði stöðina á Selfossi. Hann hefur átt rafmagnsbíl í tæpt ár og telur þessar stöðvar lykilþátt í að hraða rafbílavæðingu á Íslandi. Með tilliti til umhverfissjónarmiða og sparnaðar séu rafbílar góðir fyrir Ísland. Frá áramótum hafa tíu rafbílar bæst við bílaflota Íslendinga mánaðarlega og bíltegundum í boði fjölgar.

Liður í stefnu Olís

Jón Halldórsson, forstjóri Olís, segir í tilkynningu að opnun hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla sé liður í stefnu félagsins að auka aðgengi viðskiptavina að umhverfisvænum og endurnýjanlegum orkugjöfum.

Olís rekur nú tvær metanafgreiðslur í Reykjavík og opnar þá þriðju í samstarfi við Norðurorku á Akureyri á næstu vikum. Í fyrra kynntu fulltrúar félagsins fyrst íslenskra olíufyrirtækja, dísilolíu blandaða með vetnismeðhöndlaðri lífrænni olíu, sem er hreinna og umhverfisvænna dísileldsneyti en þekkst hefur. Allt er þetta liður í umhverfisstefnu félagsins sem starfað hefur verið eftir um árabil. sbs@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina