Borgað verði fyrir að farga dísilbílum

Boris Johnson, borgarstjóri London, fær sér far með strætó – …
Boris Johnson, borgarstjóri London, fær sér far með strætó – sem gengur fyrir dísilolíu.

Boris Johnson, borgarstjóra í London, er annt um loftgæði, ekki síst í borginni sjálfri. Nýjasta útspil hans í þá veru að draga úr mengun er að leggja til að dísilbílum verði fargað jafnt og þétt.

Leggur Johnson til að eigendum dísilbíla verði greidd 2.000 pund, um 390 þúsund krónur, fyrir að farga bílunum og leiðrétta þannig „hrapalleg“ mistök í stefnu stjórnvalda. Fyrir umhverfisnefnd sagði Johnson að áróðurinn fyrir dísilbílum á sínum tíma hefði reynst „hrikaleg mistök“ af hálfu stjórnvalda.

„Milljónum manna var tjáð að þeir væru að gera hið rétta, það hreina, það vistvæna með því að kaupa dísilbíla. Þeim finnst illa farið með sig því nú er þeim sagt að þeir mengi meira en aðrir,“ sagði Johnson.

Með förgunargjaldi segir borgarstjórinn að eigendur bílanna fengju bættar ívilnanir sem notaðar voru til að hvetja fólk til kaupa á dísilbíl í stað bensínbíls.

Fyrir áratug voru 1,6 milljónir dísilbíla á breskum vegum en 11 milljónir í dag, eða þriðjungur allra skráðra bíla. Fæstir þeirra uppfylla Euro-6-viðmiðin.

Hin mikla skrímslavæðing dísilbílsins í London stafar af því, að eldri dísilbílar losa meira nituroxíð (Nox) en bensínbílar og London á yfir höfði sér sektir vegna mikillar mengunar sem er umfram viðmið Evrópusambandsins (ESB). Bresk heilbrigðisyfirvöld segja að rekja megi 29.000 dauðsföll á ári til loftmengunarinnar í bresku stórborginni.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina