Séntilmaður með einfaldan smekk

2015 árgerðin af Audi A8 V12 er sérlega fallegur glæsivagn …
2015 árgerðin af Audi A8 V12 er sérlega fallegur glæsivagn og er væntanlega að minnsta kosti á óskalistanum hjá Bryan Ferry, ef ekki nú þegar í bílskúrnum hans.

Allir sem eru sæmilega að sér í poppsögunni vita hver Bryan Ferry er. Um langt árabil leiddi hann hljómsveitina Roxy Music og öðlaðist heimsfrægð sem söngvari hennar.

Seinna meir lagði hann í farsælan sólóferil sem meðal annars gat af sér stórsmellinn Slave To Love sem fyrst toppaði vinsældalista árið 1985 og tryllti mannskapinn svo öðru sinni þegar hann rataði í Bitter Moon, erótískan sálfræðitrylli Romans Polanskis fá 1991. Allt um það, færri vita sjálfsagt að Ferry er bílakall, eða réttara sagt bílskall því hann hefur satt að segja dálæti á einni einustu gerð bíla og hefur átt þá nokkra í röð. Önnur ökutæki koma einfaldlega ekki til greina hjá þessum konungi svalheitanna.

Lágstemmd fágun er málið

Að óreyndu væri freistandi að álykta að sterkefnaður maður á borð við hr. Ferry myndi sækjast eftir áberandi bílum sem kosta kjánalegar fjárhæðir – Rolls Royce Phantom, Lamborghini Aventador eða Bugatti Veyron, svo dæmi séu tekin um algeng leikföng hinna auðugu – en það er fráleitt svo. Eftirlætisbíllinn hans Bryans er nefnilega Audi A8. Ekki svo að skilja að það sé einhver slorkerra, öðru nær; munurinn er sá að það ber meira á appelsínugulum Lamborghini, svo dæmi sé tekið, en stálgráum Audi A8, og það kann Ferry að meta.

Reyndar naut kappinn þess að eiga talsvert meira áberandi bíla hér á árum áður, og til eru myndir af honum við eldrauðan Porsche 911 og fagurgrænan Bentley T2. Nú er öldin önnur og okkar maður vill síður láta eins mikið á sér bera þótt hvergi sé slegið af kröfunum um góðan farkost og veglegan.

Ferry lét hafa eftir sér einhverju sinni að helstu kostir A8 væru tvíþættir. Annars vegar að þótt bíllinn væri gullfalleg hönnun, búinn öllum hugsanlegum aukabúnaði og kostaði sitt þá vekti hann ekki tiltakanlega athygli, nokkuð sem hann kynni að meta; þótt hann væri pikkfastur í umferðarteppu væri enginn að gefa honum sérstaklega gaum. Öðru máli gegndi ef hann væri á Rolls eða Ferrari; þá væri múgur og margmenni að guða á gluggana og gá hver væri þar á ferð.

Hinn kosturinn væri sá að bíllinn væri nógu öflugur til að fara flugleiðina milli áfangastaða (Ferry velur alltaf V12-útgáfuna með breiðara hjólhafið) en að sama skapi sé bíllinn nógu stöðugur og þægilegur til að farþegar geti slakað á og horft á DVD í mestu makindum. Svo mjög er kappinn hrifinn af bílnum að ekki alls fyrir löngu kaus hann bílinn sem farskjóta þegar hann var á tónleikaferðalagi um Bretland. Bílar sem hafa betur en einkaþota hljóta að hafa eitthvað við sig, ekki satt?

jonagnar@mbl.is

Áttan sem Ferry ekur – og lætur aka sér í …
Áttan sem Ferry ekur – og lætur aka sér í – um þessar mundir er sá fjórði af þessari gerð sem hann á. Síðan hann prófaði A8 fyrst hefur hann ekki litið við öðrum bílum.
Bryan Ferry á fjölmarga aðdáendur hér á landi eins og …
Bryan Ferry á fjölmarga aðdáendur hér á landi eins og glöggt sást þegar hann lék fyrir stappfullum Eldborgarsal í Hörpu á Listahátíð í maí 2012. Ljósmynd/http://www.bryanferry.com
Bryan Ferry er ekki einasta fágaður og smekkvís þegar kemur …
Bryan Ferry er ekki einasta fágaður og smekkvís þegar kemur að tónlist og klæðaburði heldur hefur hann líka einfaldan smekk á bifreiðum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: