DS módelin ekki kennd við Citroen

PSA Peugeot-Citroen er staðráðið  í að skapa DS-bílunum sérstaka stöðu og verður gengið það langt í því efni að hætta að kenna þá við Citroen.

Verður svo með alla bíla í DS-línunni að hvergi munu táknmerki eða nafn bílsmiðsins franska vera að finna á þeim.

Forstjórinn Carlos Tavares segir að markmiðið sé að skapa fjarlægð milli DS-línunnar og annarra fólksbíla fyrirtækisins og síðan er ætlunin að þróa DS-bílana sem helstu keppinauta Audi.

„Frá og með 2015 verður DS merkið aftengt Citroen. Við þurfum sérstakt svið og jafnvel sérstaka umboðsaðila en við ætlum að aðskilja framleiðsluna og þurfum aðra verkfræðistaðla,“ segir Tavares.

„DS gæti orðið keppinautur Audi þegar 2020 gengur í garð. Bílarnir sem eru í pípunum hjá okkur eru sérdeilis spennandi. Við ætlum samt ekki að keppa við Þjóðverjana með eins vopnum. Við ætlum að beita franskri fágun, stílum og straumum sem Þjóðverjarnir geta ekki og það mun sýna sig í hugmyndabílum sem brátt munu sjá dagsins ljós,“ bætir Citroenstjórinn við.

Fyrsti hugmyndabíllinn sem Tavares skírskotar til verður sýndur á Parísarsýningunni í byrjun október, Divine DS. Verður hann kraftbirtingarform þessarar fágunar og frönsku stíla sem hann nefnir.



 

mbl.is