Mercedes upp fyrir milljónina

Mercedes-Benz E-Class.
Mercedes-Benz E-Class. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Allt stefnir nú í að ný met verði slegin í umsvifum Mercedes-Benz í ár; ofan á metárið í fyrra.

Það er að þakka vexti í sölu þýska bílsmiðsins á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu, Bandaríkjunum og í Evrópu. Munar ekki síst um stanslausan vöxt í sölu Mercedes-Benz í Kína.

Í fyrra, 2013, seldi Mercedes-Benz 1.461.680 fólksbíla – sem var met. Við síðustu mánaðamót, 31. ágúst, hafði fyrirtækið selt 1.032.410 bíla frá áramótum, sem er 12,3% söluaukning frá sama tímabili í fyrra. Með öðrum orðum rýfur þýski lúxusbílasmiðurinn einnarmilljónarmúrinn mánuði fyrr en í fyrra.

Í Bandaríkjunum nemur aukningin 8,2% það sem af er ári, í Evrópu 7,3% og síðan hvorki meira né minna en 25,7% á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu, en þar eru markaðir eins og Kína, Japan og Ástralía. Mercedes skrifar árangurinn á ört vaxandi og breikkandi bílalínu.

Mesta keppni í smíði og sölu lúxusbíla fær Mercedes frá öðrum þýskum bílsmiðum, BMW og Audi. Sá fyrrnefndi hafði selt þeirra mest um síðustu mánaðamót, eða 1.151.904 eintök, sem er 9,5% aukning frá í fyrra. Audi er í öðru sæti með 1.138.700 eintök, sem er 10,5%.

Í ljósi árangursins fyrstu átta mánuðina gerir Audi nú ráð fyrir að selja 1,7 milljónir bíla í ár og hjá BMW segjast menn vongóðir um að rjúfa tveggja milljóna bíla múrinn í fyrsta sinn.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: