Ungir efnilegir ökumenn fá tækifæri erlendis

Baldur Arnar og Guðni Freyr á góðri fer við Helguvík …
Baldur Arnar og Guðni Freyr á góðri fer við Helguvík í sumar. mbl.is/Malín Brand

Það er virkilega ánægjulegt að sjá unga ökumenn í rallinu hér á landi skara fram úr og enn ánægjulegra er þegar af afrekum þeirra fréttist erlendis.

Baldur Arnar Hlöðversson er einn þeirra en hann var tvítugur í síðasta mánuði og hefur keppt í ralli í fimm ár. Nú hefur hann verið valinn til að taka þátt í Young Driver Excellence Academy og fer þjálfunin fram í Hollandi í lok október. Það hefur mikla þýðingu fyrir unga ökumenn að fá slíkt tækifæri þar sem þeir læra meira um ólíka þætti akstursíþrótta, öryggisatriði og íþróttaandann hvort sem er á braut eða utan. FIA Institute for motor sport safety & sustainability hefur frá árinu 2011 boðið upp á þjálfunina fyrir framúrskarandi unga ökumenn og það er ánægjulegt að litið sé til Íslands í því samhengi, enda eigum við fjölda ökumanna sem hafa allt til að bera til að skara fram úr úti í hinum stíra heimi. Ökumenn í Young Driver Excellence Academy njóta leiðsagnar fyrrverandi Formulu 1 ökumannsins Alex Wurz ásamt fyrrverandi WRC meistara aðstoðarökumanns Robert Reid og yfir því er nú ekki hægt að kvarta.

Lífsstíll, vinna og áhugamál

Baldur Arnar segist fagna þessu tækifæri sem hann fær. „Það er gaman að eitthvað sé að gerast í þessu núna hér á landi. Maður hefur horft á unga krakka úti í heimi fá tækifæri og nú fær maður það loksins sjálfur,“ segir Baldur. Námið kemur töluvert inn á sálfræðilegan þátt akstursíþrótta og það að vera hluti af liðsheild. Líkamlegur styrkur og samhæfing er einnig ofarlega á blaði.

Baldur byrjaði að keppa í ralli fimmtán ára gamall, þá sem aðstoðarökumaður með föður sínum Hlöðveri Magnúsi Baldurssyni. Saman náðu þeir prýðilegum árangri í rallinu. Á sautján ára afmælisdaginn keppti hann í ralli sem ökumaður og hefur gert síðan. Áhugann má þó rekja enn lengra aftur því Baldur man ekkert eftir sér öðruvísi en með óþrjótandi áhuga á bílum og akstursíþróttum. „Ég fylgdist náttúrulega með pabba því hann var alltaf að keppa og maður hefur séð myndir af sjálfum sér í albúmum heima þar sem maður er pínulítill í pínulitlum keppnisgalla í kringum pabba,“ segir Baldur. Það er ekki nóg með að bílarnir séu áhugamálið heldur er Baldur í bifvélavirkjanámi og starfar á verkstæðinu Bíljöfri þar sem hann nýtur sín vel.

Fyrsti bíllinn er draumabíllinn

Í rallinu keppir Baldur á Subaru Impreza og hefur ekki í hyggju að breyta nokkuð til. „Hann hefur reynst mér mjög vel og það kemur voða fátt annað til greina en að keyra Subaru, held ég,“ segir hann og sú tegund einskorðast ekki við keppni því dags daglega ekur hann um á Subaru Imprezu GT Turbo. Draumabílinn eignaðist hann fyrir nokkru síðan en það er jafnframt fyrsti bíll Baldurs, Toyota Corolla AE86 afturdrifinn. Sá bíll er gamli bíll föður hans. „Ég færi samt aldrei að keppa á honum í ralli, pabbi er svo erfiður! En bílinn keypti ég fyrir fermingarpeninginn. Við pabbi keyptum hann saman og minn part borgaði ég með fermingarpeningnum,“ segir Baldur. Hann horfir björtum augum til framtíðarinnar í akstursíþróttunum og hvetur aðra unga ökumenn til að setja markið hátt og halda ótrauðir áfram. „Það er vel hægt að búa til flotta ökumenn hérna eins og alls staðar annars staðar,“ segir hann og ítrekar að góður stuðningur sé líka nauðsynlegur.

„Ég vil þakka liðinu mínu, G7 Racing Team, fyrir alla hjálpina. Án þeirra hefði ég aldrei komist svona langt áfram. Það er mikilvægt að hafa gott service-lið og ég er svo sannarlega heppinn að hafa svona stórt lið sem stendur við bakið á mér,“ segir ökuþórinn ungi, Baldur Arnar Hlöðversson að lokum.

malin@mbl.is

Tækifærin til að fagna hafa verið mörg að undanförnu, enda …
Tækifærin til að fagna hafa verið mörg að undanförnu, enda gengið vel.
Gott flug á þeim Baldri og Guðna Frey í ralli …
Gott flug á þeim Baldri og Guðna Frey í ralli á Suðurnesjum í júní. mbl.is/Malín Brand
Baldur Arnar og liðsmenn hans í G7 liðinu fagna góðum …
Baldur Arnar og liðsmenn hans í G7 liðinu fagna góðum árangri að keppni lokinni.
Vel er tekið á bílunum í rallinu og vissara að …
Vel er tekið á bílunum í rallinu og vissara að lenda á dekkjunum. mbl.is/Malín Brand
Baldur Arnar Hlöðversson gleðbeittur í keppni. Hann byrjaði 15 ára.
Baldur Arnar Hlöðversson gleðbeittur í keppni. Hann byrjaði 15 ára.
Feðgarnir Baldur og Hlöðver. Baldur byrjaði snemma að fylgjast með.
Feðgarnir Baldur og Hlöðver. Baldur byrjaði snemma að fylgjast með.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: