Dagljósin ekki fullnægjandi

Dagljósin ekki fullnægjandi.
Dagljósin ekki fullnægjandi. mbl.is/Nissan

Dagljósabúnaður bíla er ófullnægjandi þegar rökkva tekur og skyggni er slæmt því meðan þessi ljós eru notuð logar ekki á afturljósum. Þau loga aðeins eþgar kveikt er á aðalljósum.

Að sögn Samgöngustofu er töluvert um það, að nýjum bílum sé ekið um vegi landsins í rökkri og slæmu skyggni án þess að kveikt sé á aðalljósum. Svo virðist sem misskilnings gæti meðal ökumanna nýlegra bíla um virkni þess dagljósabúnaðar sem fylgir bílnum.

„Flestir nýjir nýir bílar í dag eru með LED ljós að framan, svonefnd dagljós, sem stöðugt er kveikt á svo lengi sem bíllinn er í gangi. Gallinn er hins vegar sá að ökuljósin, þ.m.t. afturljósin, loga ekki nema kveikt sé á aðalljósunum og því eru dagljósin ekki fullnægjandi þegar rökkva tekur eða þegar skyggni er slæmt.

Skylt að kveikja á aðalljósum

Tekið skal fram að heimilt er að aka um með aðeins dagljósin kveikt á björtum degi en um leið og dimma tekur eða skyggni skerðist er mikilvægt og skylt að kveikja á aðalljósum.

Samgöngustofa vill benda eigendum nýlegra og nýrra bíla á að nauðsynlegt er að kveikja á ökuljósum við þessar aðstæður svo bæði logi ljós að framan og aftan. Það getur borgað sig að kveikja einfaldlega á aðalljósunum um leið og bifreiðin er ræst. Ljósin eru til þess að ökumaður sjái betur en jafnframt til þess að hann sjáist betur. Með því er fyllsta öryggis gætt og farið að ákvæðum umferðarlaga.

Nú þegar dimma tekur skiptir miklu máli að ljósabúnaður ökutækja sé í lagi og hann rétt notaður. Ágætt er að ganga úr skugga um það reglulega að öll ljós séu í lagi því það getur reynst bæði hættulegt og ólöglegt að vera með bilaðan ófullnægjandi ljósabúnað,“ segir Einar Magnús Magnússon kynningarstjóri Samgöngustofu.

mbl.is