Rafmagn og metan sækja enn á

Friðbert Friðbertsson segir rannsóknir sýna að samsetning bílaflotans á Íslandi …
Friðbert Friðbertsson segir rannsóknir sýna að samsetning bílaflotans á Íslandi mun halda áfram að þróast á þann veg að smábílum fer fjölgandi. mbl.is/Árni Sæberg

Friðbert Friðbertsson segir söluna í dag vera mesta í smærri bílum og jepplingum.

„Vaxandi hlutur minnstu bílanna í bílaflota landsmanna er í takt við þá þróun sem við höfum séð annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku eru þannig 60% bílaflotans smærri bílar. Rannsóknir á íslenska markaðinum sýna að líklegt er að bílasalan muni halda áfram á þessari braut.“

Friðbert er forstjóri Heklu. Hann segir von á mörgum spennandi nýjum bílum á næstunni. „Nýr VW Passat var kynntur á bílasýningunni í París á dögunum, mjög flottur bíll og vel búinn sem hefur fengið góða dóma hjá bílablaðamönnum. Einnig er væntanlegur nýr Skoda Fabia-smábíll sem ætti að henta mjög vel íslenskum markaði.“

Rafmagnið vekur lukku

Neytendur hér á landi velja í æ meira mæli bíla sem ganga fyrir orkugjöfum öðrum en bensíni og dísil. Segir Friðbert nýjan rafmagns-Golf, e-Golf, koma á markaðinn í lok árs en þegar hafa bílar á borð við rafmagns-e-up! og Audi A3 e-tron-tvinnbílinn fengið góðar viðtökur.

„Mitsubishi Outlander-jeppinn selst vel í tvinnútgáfu. Bíllinn er tvíorkubíll, knúinn með rafmagni og bensíni. Hægt er að aka allt að 50 km á rafmagni og 600-700 km til viðbótar á fullum bensíntanki. Þar sem dæmigerður daglegur akstur einkabíls á höfuðborgarsvæðinu er innan við 40 km er þetta bíll sem margir aka á rafmagnshleðslunni eingöngu. Samt hafa þeir alltaf möguleikann á að leggja af stað út fyrir bæjarmörkin.“

Lítið virðist hafa farið fyrir umræðunni um metanbíla það sem af er árinu en Friðbert segir það ekki þýða að þessir bílar eigi ekki erindi á Íslandi. „Um tíma féllu metanbílar í skuggann af umræðu um rafmagnsbíla og neikvæð umræða hefur verið um bíla sem breytt var á Íslandi til að þeir gætu gengið fyrir metani. Hekla selur einungis metanbíla sem koma tilbúnir frá framleiðendum og hafa þeir reynst vel.“

Bendir Friðbert á að metanafgreiðslustöðvum fjölgi hratt og eftirspurnin eftir þessu eldsneyti hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. „Hægt er að fylla á metantankinn á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og nýlega var opnuð metanstöð á Akureyri. Þeir sem velja metanbíla sjá bæði um helmings-sparnað í eldsneytiskostnaði borið saman við bensín- og dísilbíla, og um leið gera þeir umhverfinu gott því metan-vélarnar skila frá sér hreinni útblæstri.“

Lúxus í litlum pakka

Að sögn Friðberts leitar þorri viðskiptavina í framleiðendur með hagstætt verð, s.s. Skoda og Volkswagen. Þar með er ekki sagt að bílar í lúxusflokki, eins og Audi, safni ryki í sýningarsölunum. Hjálpar þar til að Audi og aðrir framleiðendur í sama gæðaflokki hafa stækkað mjög hjá sér framboðið á bílum og hægt er að finna minni lúxusubíla sem eru á hagstæðu verði.

„Það er hægt að kaupa Audi A3 á minna en fimm milljónir og er þar kominn bíll í hæsta gæðaflokki sem bæði hefur sparneytna og kröftuga vél og er hlaðinn tæknibúnaði.“

Talandi um lúxusbíla þá nefnir Friðbert nýjan Audi TT sem frumsýndur var í Genf fyrr á árinu og fer í sölu árið 2015. „Ein merkilegasta nýjungin í þeim bíl er mælaborðið en þar hefur hefðbundnum skífum og vísum verið skipt út fyrir tölvuskjá sem sýnir bæði hraða og snúning samhliða því að hýsa leiðsögukerfið.“

ai@mbl.is

Nýlegir notaðir bílar seljast vel

Sala á nýjum og notuðum bílum er farin að glæðast. Friðbert segir að vegna samdráttar sem varð á innflutningi nýrra bíla sé greinilegur skortur á ökutækjum af árgerðum 2009-2011 og bílar á þessum aldri sem koma á markaðinn seljist vel. „Eins og undanfarin ár eru það eyðslufrekir bensínbílar sem erfiðast er að selja.“
Framleiðendur lúxusbila hafa útvíkkað framboðið og hægt að fá lúxusinn …
Framleiðendur lúxusbila hafa útvíkkað framboðið og hægt að fá lúxusinn í smáum pökkum ef fólk vill síður kaupa stóru og dýru drossíurnar. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: